Enn óljóst með tengsl fólksins

Hótelið við ána Ilz í Passau.
Hótelið við ána Ilz í Passau. AFP

Karl og kona, sem fundust látin í rúmi hótels í Þýskalandi, voru skotin með örvum beint í hjartað á meðan þriðja manneskjan var skotin til bana með örvarskoti í hálsinn. Fólkið var allt skotið til bana með lásboga. 

Lík þeirra fundust í hótelherbergi í Bæjaralandi á laugardag og inni í herberginu voru einnig þrír lásbogar. Tveir þeirra voru notaðir til þess að skjóta örvunum. 

Torsten W, 53 ára og Kerstin E, 33 ára, lágu hlið við hlið í rúminu og héldust í hendur. Farina C, sem var þrítug að aldri, fannst látin á gólfi hótelbergisins sem er skammt frá Passau. Talið er að andlát þeirra tengist tveimur dauðsföllum í Norður-Þýskalandi.

Við íbúðina í Wittingen.
Við íbúðina í Wittingen. AFP

Að sögn saksóknara í Passau er öruggt að enginn var í herberginu fyrir utan þau þrjú sem létust. Engin merki eru um átök en fólkið hafi innritað sig á hótelið á föstudagskvöldið og ætlað að gista þrjár nætur. Það var starfsmaður hótelsins sem fann þau látin í herberginu. 

Fólkið var allt á skrá hjá samtökum sem skipuleggja keppnir í miðaldabardögum. Engin slík keppni er í gangi í Þýskalandi um þessar mundir en stigagjöfin miðast við hæfni við að beita miðaldavopnum og útreiðum.

AFP

Lík tveggja kvenna um þrítugt fundust í íbúð Farinu C í Wittingen í gær. Wittingen er í 650 km fjarlægð frá hótelinu þar sem líkin þrjú fundust. Þýskir fjölmiðlar greina frá því að önnur kvennanna hafi verið unnusta Farinu C en ekki hefur verið upplýst um hvernig dauða þeirra bar að annað en að lásboga hafi verið beitt. 

Allt fólkið er þýskir ríkisborgarar. Að sögn saksóknara fundust líkin í Wittingen eftir að nágranni heyrði fréttir af líkfundinum á hótelinu og lét lögreglu vita að pósthólf íbúðarinnar væri yfirfullt og óþefur bærist frá íbúðinni.

Lögregla hefur girt af húsið í Wittingen þar sem lík …
Lögregla hefur girt af húsið í Wittingen þar sem lík tveggja kvenna fundust í gær. AFP

Enn er allt á huldu varðandi tengsl þremenninganna á hótelberginu að sögn BBC. 

Torsten W hafði verið skotinn í tvígang í höfuðið og þrisvar í brjóstið á meðan Kerstin E, sem lá við hlið hans, var með eina ör í höfðinu og aðra í brjóstinu. Farina C lá fyrir framan rúmið og var með eina ör í sér, á milli háls og kinnar.

Torsten W var með sítt hvítt skegg og konurnar voru svartklæddar. Gestir á hótelinu lýstu þeim sem furðulegum. Þegar þau komu á hótelið buðu þau gesti gott kvöld og héldu síðan upp í herbergið með vatnsflöskur og Coca-Cola.

Nágranni Farinu C í Wittingen lýsti því að hún hafi alltaf verið svartklædd og í gotneskum anda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert