Fyrsti kvenkanslari Austurríkis

Brigitte Bierlein er kanslari til bráðabirgða þar til í september.
Brigitte Bierlein er kanslari til bráðabirgða þar til í september. AFP

Eftirmaður yngsta kanslara í sögu Austurríkis, Sebastian Kurz, verður fyrsta kona í sögu Austurríkis til að vera kanslari. Hún heitir Brigitte Bierlein og hefur síðustu ár verið formaður stjórnarskrárdómstóls Austurríkis.

„Ég bað um að fá smá umhugsunartíma og að honum loknum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég ætla að takast á hendur þetta ábyrgðarverk, fyrir heill Austurríkis,“ sagði hún við fjölmiðla við tilefnið.

Vitaskuld var Bierlein ekki kjörin í embættið heldur tók forseti Austurríkis ákvörðun um skipun hennar, Alexander van der Bellen. Hann tilkynnti um þetta í dag.

Það var síðasta mánudag sem ríkisstjórn Sebastian Kurz var felld með vantrauststillögu í þinginu. Van der Bellen sagðist þá mundu setja saman bráðabirgðastjórn, sem ríkti þar til í september. Þá verður kosið.

Sebastian Kurz, leiðtogi Þjóðarflokksins, var 31 árs þegar hann tók við embætti kanslara árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert