Samband Bannon og Johnson

Steve Bannon.
Steve Bannon. AFP

Steve Bannon, sem var einn helsti ráðgjafi Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta, segist hafa aðstoðað Boris Johnson við að semja ræðuna sem sá síðarnefndi flutti þegar hann sagði af sér sem utanríkisráðherra Bretlands. Johnson hefur hingað til svarið af sér tengsl við Bannon.

Þetta kemur fram í Observer í dag en blaðið er með myndskeið þar sem Bannon talar um samband sitt við Johnson og hvernig hann hafi aðstoðað hann.

Fréttir af sambandi Johnson og Bannon birtust fyrst í fyrrasumar. Þegar Johnson var spurður út í tengslin við Bannon á þeim tíma sagði hann að þetta væri aðeins ofskynjanir vinstrimanna sem dreifðu um hann óhróðri á Twitter. Hann hafi hitt Bannon starfs síns vegna sem utanríkisráðherra en annað væri það ekki. 

Myndskeiðið hefur ekki verið  birt áður en það var tekið í júlí í fyrra af Alison Klayman en hún er að vinna heimildarmynd um Bannon. Klayman, sem er bandarísk kvikmyndagerðarkona, fylgdi Bannon eftir í marka mánuði við gerð myndarinnar The Brink en hún verður frumsýnd í næsta mánuði. Í myndinni lýsir Bannon nánu sambandi við Johnson ekki síst eftir að Johnson sagði af sér embætti í ríkisstjórn Theresu May. 

Frétt Observer/Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert