Sá fyrsti ákærður vegna mótmælanna

Mótmælin hafa að mestu verið friðsæl en hópur ungra mótmælenda …
Mótmælin hafa að mestu verið friðsæl en hópur ungra mótmælenda hefur þó gripið til nokkurra ofbeldisfullra aðgerða. AFP

Götulistamaður í Hong Kong hefur verið ákærður fyrir skemmdarverk og árás á lögreglumann, en ákæran er sú fyrsta sem gefin er út í tengslum við mótmæli sem staðið hafa yfir í Hong Kong vikum saman.

Mótmælaaldan hófst þegar til stóð að taka fyrir frumvarp sem leyft hefði framsal á afbrotamönnum til Kína. Þing Hong Kong hefur frestað fyrirtöku málsins en mótmælin halda áfram og krefjast mótmælendur aukins lýðræðis og afsagnar ríkisstjóra Hong Kong, Carrie Lam.

Mótmælin hafa að mestu verið friðsæl en hópur ungra mótmælenda hefur þó gripið til nokkurra ofbeldisfullra aðgerða, fyrst þegar þeir yfirtóku aðallögreglustöð borgarinnar og síðan þegar þeir brutust inn í þinghús sjálfstjórnarsvæðisins.

Yfirvöld í Hong Kong og í Kína hafa lofað því að þeir sem stóðu fyrir aðgerðunum verði sóttir til saka og er ákæran gegn hinum 31 árs gamla Pun Ho-chiu aðeins sú fyrsta af mörgum.

Hann er ákærður fyrir óspektir og fyrir að kasta eggjum í lögreglumenn meðan á yfirtöku lögreglustöðvarinnar 21. júní stóð. Hann á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisvist, en hann var einn mótmælenda sem ekki huldi andlit sitt með grímu á lögreglustöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert