Máli gegn Boris Johnson vísað frá

Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands. AFP

Dómstóll í Bretlandi vísaði í síðasta mánuði frá máli sem höfðað hafði verið gegn Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra landsins, einkum vegna ítrekaðra yfirlýsinga hans í aðdraganda þjóðaratkvæðisins 2016 þar sem meirihluti breskra kjósenda samþykkti að ganga úr Evrópusambandinu, um að hægt yrði að verja 350 milljónum punda, sem færu til sambandsins í hverri viku vegna veru Breta innan þess, til heilbrigðiskerfisins í staðinn.

Dómurinn var staðfestur fyrir helgi en sá sem höfðaði málið, Marcus Ball, segist ætla að áfrýja niðurstöðunni til æðra dómstigs í samtali við breska ríkisútvarpið BBC ef lögmenn hann ráðleggi honum það. Málið snerist um að Johnson hefði farið með rangt mál á meðan hann gegndi opinberu embætti og var þar vísað til þess þegar hann var borgarstjóri London. Þannig hefði hann gerst sekur um brot í opinberu starfi. Lögmenn Johnsons þvertóku fyrir það.

Dómararnir í málinu komast að þeirri niðurstöðu meðal annars að ekki hafi verið sýnt fram á að Johnson hafi gegnt opinberu embætti þegar hann hafi viðrað umræddar yfirlýsingar. Þá kemur fram í dómsorði að draga megi þá ályktun af kærunni á hendur Johnson að ef hann hefði sagt að 350 milljóna punda talan væri brúttótala hefði ekki komið til málsóknarinnar. Stuðningsmenn Johnsons hafa í kjölfarið bent á ýmis dæmi þess að það hafi hann einmitt gert.

Líklegt er talið að Johnson verði næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands en hann etur nú kappi í leiðtogakjöri innan flokksins við Jeremy Hunt utanríkisráðherra. Tilkynnt verður um niðurstöðu kjörsins 22. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert