Styðja systur sem drápu föður sinn

Angelína Khachaturyan, ein systranna þriggja, er hér leidd fyrir dómara …
Angelína Khachaturyan, ein systranna þriggja, er hér leidd fyrir dómara í Moskvu. Lögfræðingur systranna segir þær hafa þjáðst af áfallastreituröskun. AFP

Það var kvöld eitt síðasta sumar sem systurnar  Krestína, Angelína og María Khachaturyan fóru inn í herbergið þar sem faðir þeirra Mikhaíl svaf og réðust gegn honum vopnaðar piparúða, hníf og hamri.

Réttarhöld eru nú í gangi yfir systrunum, sem voru 17, 18 og 19 ára er þær drápu föður sinn. Hundruð þúsunda hafa lýst yfir stuðningi við systurnar og segja stuðningsmenn þeirra þær hafa verið að verja sig gegn ofbeldisfullum föður. Rússneska dómskerfið hafi brugðist þeim og segja gagnrýnendur réttarkerfið raunar kjósa að horfa fram hjá heimilisofbeldi.

230.000 manns hafa þegar ritað nafn sitt undir beiðni þar sem farið er fram á að systurnar verði látnar lausar og ákærur gegn þeim felldar niður. Reuters-fréttaveitan segir systurnar ekki hvað síst eiga stuðninginn því að þakka að margar rússneskar konur telja sig geta lent í sömu stöðu verði ekki gerðar breytingar á dómskerfinu.

„Ég finn til samkenndar með systrunum,“ hefur Reuters eftir þýðandanum Önnu Sinyatkina, sem tók þátt í ljóðaupplestri á næturklúbbi í Moskvu til stuðnings systrunum.

„Ég upplifi að ég geti hvenær sem er lent í þeim aðstæðum að enginn nema ég reyni að verja líf mitt og ég muni hvorki fá vernd né réttláta málsferð að því loknu.

Hringdu sjálfar á lögreglu

Eftir að Khachaturyan-systurnar drápu föður sinn 27. júlí í fyrra hringdu þær á lögregluna. Í fyrstu fullyrtu þær að hann hefði ráðist á þær og að um sjálfsvörn hefði verið að ræða. Rannsókn leiddi síðar í ljós að það var ekki rétt, en systurnar hefðu árum saman sætt líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hendi föður síns. Hann hefði barið þær reglulega og misþyrmt kynferðislega með hrottalegum hætti. Kveðst Reuters hafa séð gögn lögreglu þessa efnis.

Málið kom upp á svipuðum tíma og gagnrýnt hefur verið að stjórnvöld hafi dregið úr þeirri vernd sem þær konur sem sæta heimilisofbeldi eiga rétt á, en 2017 ákváðu rússnesk stjórnvöld að vissar gerðir heimilisofbeldis teldust ekki lengur glæpur. Þannig á nú sá sem lemur ættingja sinn svo úr honum blæði eða hann sé marinn eingöngu yfir höfði sér sekt, svo framarlega sem slíkt gerist ekki oftar en einu sinni á ári.

María Khachaturyan í dómsal. Systurnar hugleiddu að flýja, en óttuðust …
María Khachaturyan í dómsal. Systurnar hugleiddu að flýja, en óttuðust reiði föður þeirra myndi hann ná þeim aftur. AFP

Síðastliðinn þriðjudag úrskurðaði mannréttindadómstóll Evrópu að rússnesk yfirvöld hefðu brugðist konu sem æ fyrrverandi maki ofsótti, réðst á og rændi.

Nágranni kærði ofbeldið en lögregla gerði ekkert

Alexei Parshin, lögfræðingur systranna, segir þær hafa þjáðst af áfallastreituröskun þegar drápið átti sér stað. Þær hafi hugleitt að flýja en óttast reiði föður síns ef hann næði þeim aftur. Foreldrar þeirra eru skilin.

Lögfræðingurinn Alexei Liptser segir systurnar hafa sætt svo gott sem daglegum barsmíðum, auk kynferðisofbeldisins og þá hafi faðir þeirra skotið á þær með loftbyssu. Krestína reyndi að fremja sjálfsmorð árið 2016, en systur hennar björguðu henni.

Parshin segir nágranna stúlknanna hafa haft samband við lögreglu nokkrum sinnum og tilkynnt að þær sættu ofbeldi, en faðirinn hafi aldrei verið ákærður.

Á síðasta ári fór faðir stúlknanna svo með þær inn í herbergi eina á eftir annarri og notaði piparúða á þær með þeim afleiðingum að sú elsta kafnaði næstum.

Liptser segir tvær eldri stúlkurnar því hafa ákveðið að ef þær brygðust ekki við dæi einhver þeirra. Þær biðu því þar til hann sofnaði og stungu hann þá ítrekað.

Ekki einangrað tilfelli

Lögregluyfirvöld í Moskvu hafa ekki brugðist við beiðni Reuters um viðbrögð við málinu, en réttarhöld yfir systrunum eiga að hefjast um miðjan ágúst.

„Aðstæðurnar sem systurnar bjuggu við, að búa með föður sem nauðgar þeim er bæði kunnugleg og skelfileg,“ segir lögfræðingurinn Alyona Popova, sem hefur staðið fyrir undirskriftasöfnuninni. „Fjöldi fólks, ekki bara konur heldur líka karlar, í Rússlandi vita vel að þetta er ekki einangrað tilfelli.“

Síðasta laugardag stóð hópur aðgerðasinna fyrir mótmælum í miðborg Moskvu og héldu mótmælendur uppi skiltum með slagorðinu „Ég/við erum Khachaturyan-systurnar.“

Lítill hópur karla mótmælti mótmælunum skammt frá og héldu á lofti skiltum með frösum á borð við „Morðingjar eru ekki kyngreindir“ og „Karlaríki“, sem er nafn þjóðernishreyfingar sem telur karla eiga að fara með völdin í þjóðfélaginu.

Í siðmenntuðu ríki væru þessar stúlkur nú á geðsjúkrahúsi, en alls ekki í fangelsi,“ segir Zara Mkhitaryan, einn mótmælendanna. Kvenréttindasinnar hafa krafist þess að systurnar fái aðstoð geðlæknis í stað fangelsisvistar og að réttað verið yfir föður þeirra að honum látnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina