Gúmmíkúlum skotið á mótmælendur

Lögreglumaður skýtur táragashylki að mótmælendum í Hong Kong í kvöld.
Lögreglumaður skýtur táragashylki að mótmælendum í Hong Kong í kvöld. AFP

Lögregla í Hong Kong skaut gúmmíkúlum á og beitti táragasi gegn hópi mótmælenda í borginni í kvöld. Mótmæli hafa staðið þar yfir alla helgina, sjöundu helgina í röð, og nú þegar komið er fram á sunnudagskvöld hefur komið til átaka á milli mótmælenda og óeirðalögreglu, auk þess sem gagnmótmælendur hafa barið á þeim sem mótmæla stjórnvöldum.

Fréttamaður AFP á staðnum sá óeirðalögreglu skjóta fjölda gúmmíkúlna að mótmælendum, sem höfðu tekið yfir götur í hjarta borgarinnar og BBC greinir frá því að lögregla hafi varpað táragashylkjum til þess að dreifa mannfjöldanum eftir að lögregla var grýtt af mótmælendum.

Fækkað hefur í hópi mótmælenda á götum úti, en þeir sem eru enn úti hafa látið ófriðlega í kvöld. BBC greinir frá því að skemmdarverk hafi verið unnin, til dæmis við skrifstofur kínverskra stjórnvalda í borginni.

Á skilti þar fyrir framan hefur meðal annars verið spreyjað: „Þið kennduð okkur að friðsamleg mótmæli eru gagnslaus“.

Fækkað hefur í hópi mótmælenda á götum úti, enda komið ...
Fækkað hefur í hópi mótmælenda á götum úti, enda komið fram yfir miðnætti, en þeir sem eftir eru hafa látið ófriðlega og tekist á við lögreglu. AFP

AFP greinir frá því að í kvöld hafi hópur gagnmótmælenda, grímuklæddra hvítklæddra manna, ráðist að mótmælendum inni á lestarstöð í borginni, en myndskeið af því frá miðlinum Stand News í Hong Kong má sjá hér að neðan.

Sprengiefni fundust á föstudag

Samkvæmt frétt BBC eru um 4.000 lögreglumenn á götum úti til þess að hafa hemil á mótmælendum í kvöld.

Viðbúnaður lögreglu hefur verið mikill þessa helgina, sem mögulega tengist því að á föstudag fann lögregla í Hong Kong tvö kíló af sprengiefninu TATP, 10 bensínsprengjur, hnífa og fleiri vopn í í iðnaðarhúsnæði í borginni.

Þrír eru í haldi vegna málsins, en sprengiefnið fannst, að sögn lögreglu, innan um muni sem tengdust mótmælahreyfingunni, bæklinga og stuttermaboli.

Frétt BBC um mótmælin

mbl.is

Bloggað um fréttina