„Rússneskt kraftaverk á Hudson“

„Mér líður ekki eins og hetju. Ég gerði það sem …
„Mér líður ekki eins og hetju. Ég gerði það sem þurfti að gera, bjargaði vélinni, farþegunum og áhöfninni,“ segir flugstjóri vélarinnar, sem var með 266 farþega innanborð við flugtak frá Moskvu í gær. AFP

Rússnesku flugmennirnir tveir, sem magalentu flugvél Ural Airlines á kornakri skamt utan við Moskvu í gær eftir að báðir hreyflar Airbus-þotu þeirra sugu í sig mávager, eru hylltir sem hetjur í heimalandinu.

Rússneskir fjölmiðlar eru í dag undirlagðir af fregnum af þessari frækilegu nauðlendingu, sem hefur verið borin saman við „kraftaverkið á Hudson-ánni“ árið 2009, þar sem flugmennirnir Chesley Sullenberger og Jeffrey Skiles björguðu fjölda mannslífa með því að magalenda Airbus-vél á Hudson-ánni við Manhattan-eyju.

Í þetta skiptið eru hetjurnar þó Damir Yusupov flugstjóri og Georgi Murzin flugmaður. Flugstjórinn hefur tjáð sig um það við fjölmiðla í dag hvernig atvikið átti sér stað, skömmu eftir að vélin lagði af stað frá Zhukovsky-flugvelli við Moskvu. BBC og fleiri miðlar greina frá.

Vélin var á að klífa og auka hraðann, þegar annar hreyfillinn missti skyndilega afl. Þá höfðu flugmennirnir hug á því að snúa til baka á einum hreyfli, samkvæmt því sem Yusupov segir.

Lendingin var eins vel heppnum og mögulegt er, en nokkur …
Lendingin var eins vel heppnum og mögulegt er, en nokkur lukka var með flugmönnunum í liði. Kornakurinn var blautur og minnkaði það líkurnar á því að neistar kæmust í hreyflana. AFP

Höfðu örfáar sekúndur til að bregðast við

„Þegar við sáum að hinn var einnig að missa afl, þrátt fyrir allar okkar tilraunir, þá byrjaði vélin að lækka flugið,“ segir Yusupov. Þá voru góð ráð dýr, þar sem flugmennirnir höfðu ætlað að halda áfram að klífa á einum hreyfli.

„Ég ætlaði að komast upp í ákveðna hæð, halda henni þar, átta mig á vélarbiluninni, taka rétta ákvörðun og redda þessu öllu. En svo kom í ljós að það var bara enginn tími,“ segir Yusupov, en gögn frá Flightradar sýna að vélin fór aldrei hærra en 243 metra yfir sjávarmál.

Flugmennirnir tóku þá ákvörðun um að stöðva eldsneytisgjöf til hreyflanna og héldu henni stöðugri á meðan þeir stýrðu Airbus-þotunni niður á kornakur án þess að taka niður hjólabúnaðinn, enda var hætta á að brak úr hjólabúnaðinum gæti gert gat á stútfulla eldsneytistanka þotunnar við nauðlendingu.

„Mér líður ekki eins og hetju. Ég gerði það sem þurfti að gera, bjargaði vélinni, farþegunum og áhöfninni,“ segir Yusupov, sem segist hafa æft nauðlendingar í flughermi flugfélagsins.

Fleiri en einn rússneskur fjölmiðill segir í dag að ruslahaugar …
Fleiri en einn rússneskur fjölmiðill segir í dag að ruslahaugar nærri flugvöllum dragi að sér fuglager. AFP

Gerðu allt rétt

Yuri Sytnik, einn þekktasti flugmaður Rússlands, sagði við dagblaðið Komsomolskaya Pravda í dag að flugmennirnir hefðu gert allt rétt: „Þeir gerðu allt eftir bókinni, slökktu á hreyflunum, stýrðu vélinni ljúflega niður, með stélhlutann á undan, eins og nauðsynlegt er, minnkuðu svo hraðann – það er mjög erfitt, þú mátt ekki dýfa nefinu, ekki láta hreyflana skella í jörðina.“

Farþegunum 266, sem voru flestir á leiðinni til Simferapol á Krímskaga í frí við strendur Svartahafsins, var sagt að fara snögglega frá borði. Um sjötíu þeirra þurfti aðhlynningu eftir nauðlendinguna, margir með marbletti, en einungis ein kona þurfti að leggjast inn á spítala vegna meiðsla sinna.

Ólöglegir ruslahaugar nærri flugvellinum

Steve Rosenberg, fréttaritari BBC í Moskvu, fór yfir umfjöllun rússneskra miðla um flugatvikið í dag á Twitter-síðu sinni. Hann vekur athygli á því að rússnesk blöð fjalli um að það sé að minnsta kosti tíu sinnum meira um það að flugvélar í Rússlandi fljúgi á fugla, en almennt í Evrópu.

Og það hefur aukist mikið á síðustu árum. Einn miðill fjallar segir að árið 2015 hafi 411 slík atvik komið upp í Rússlandi en í fyrra hafi þau verið 1.021 talsins.

Af hverju? Fleiri en einn rússneskur fjölmiðill segir í dag að ruslahaugar nærri flugvöllum dragi að sér fuglager. Eitt dagblað segir að einungis tveimur kílómetrum frá Zhukovsky-alþjóðaflugvellinum sé ólöglegur ruslahaugur. Ólöglegir ruslahaugar eru víst mýmargir í Rússlandi og erfitt reynist að uppræta þá, vegna spillingar og vanhæfni embættismanna og lögreglu.mbl.is