Endurskoða næturgistingu flugáhafna

Donald Trump á golfvellinum í Turnberry í Skotlandi.
Donald Trump á golfvellinum í Turnberry í Skotlandi. AFP

Bandaríski flugherinn hefur fyrirskipað endurskoðun á leiðbeinandi reglum um næturgistingu flugáhafna. Kemur það í framhaldi af fregnum um aukningu gistinátta á hóteli í eigu Bandaríkjaforseta í Skotlandi. 

Hefur það færst í vöxt að flugvélar flughersins stoppi á Prestwick-flugvellinum í Skotlandi, sem er í grennd við Turnberry-golfvöllinn og hótelið í eigu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. 

Þingnefnd rannsakar forsetann vegna mögulegra hagsmunaárekstra.

Yfirmenn flughersins hafa fyrirskipað að leiðbeinandi reglur varðandi næturgistingu flugáhafna á ferðum utan landsteinanna verði endurskoðaðar, að því er fram kemur í yfirlýsingu.

Hótelið og golfvöllurinn er skammt frá Glasgow.
Hótelið og golfvöllurinn er skammt frá Glasgow. AFP

Áhafnir þeirra hafi fylgt öllum reglum en því er ekki að leyna að ferðum á Prestwick hefur fjölgað undanfarin ár. Flugáhafnir stoppuðu 95 sinnum á flugvellinum árið 2015 og dvöldu 40 sinnum yfir nótt. Sú tala var komin í 259 skipti það sem af er ári og 220 sinnum dvöldu áhafnir þar yfir nótt. 

Ekki kemur fram hversu oft áhafnir hafa dvalið á hóteli forsetans.

Sjálfur segist Trump ekkert vita um málið. Hann eigi ekki flugvöllinn en telur ljóst að smekkur flughersins sé góður fyrst þeir dvelji oft á hóteli hans.

Gagnrýnendur segja að þarna græði fyrirtæki í eigu Trumps, sem standi illa fjárhagslega, á ríkinu.

mbl.is