Gera hlé á mótmælum vegna 11. september

Áhorfendur á leik Kína og Katar Hong Kong í gær …
Áhorfendur á leik Kína og Katar Hong Kong í gær snéru baki í völlin þegar kínverski þjóðsöngurinn var leikinn og héldu á lofti spjöldum þar sem „búað“ var á Kína. AFP

Aðgerðasinnar í Hong Kong gerðu í dag hlé á mótmælaaðgerðum til að minnast árásanna á Tvíburaturnana í New York hinn 11. september árið 2001. Höfnuðu þeir jafnframt fullyrðingum kínverska ríkisdagblaðsins China Daily sem fullyrti að mótmælendur væru með í undirbúningi  „umfangsmikið hryðjuverk“ í Hong Kong.

Mótmæli hafa nú staðið yfir í borginni í á fjórða mánuð og hefur oft skorist í odda milli lögreglu og mótmælenda. Mótmælin hófust vegna lagafrumvarps sem heimila átti framsal meintra brotamanna til meginlands Kína, en þróuðust síðan upp í ákall um auknar lýðræðisumbætur og að kínversk stjórnvöld létu borgina afskiptalausa.

„Ofstækismenn andsnúnir stjórnvöldum eru að undirbúa umfangsmikla hryðjuverkaárás, m.a. að sprengja upp gasleiðslur í Hong Kong hinn 11. september,“ sagði á facebooksíðu Hong Kong-útgáfu dagblaðsins China Daily. Með færslunni var svo birt mynd af einni flugvélinni sem notuð var til að fljúga á Tvíburaturnana.

Var hryðjuverkaárásin sögð hvetja til „óskipulegra árása“ á þá sem ekki hefðu kantónsku að móðurmáli sem og til þess að „gróðureldar yrðu kveiktir“. Var fullyrt í færslunni að þessum upplýsingum hefði verið lekið af spjallsvæði þar sem róttækir mótmælendur undirbyggju aðgerðir sínar.

Sama um trúverðugleikann

Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, hefur sagst vera reiðubúin að hætta við frumvarpið, en mótmælendur óttast engu að síður að kínversk stjórnvöld séu að grafa undan sjálfstjórn Hong Kong.

Kínversk stjórnvöld hafa til þessa hafnað því alfarið að þau séu að hafa afskipti af því hvernig yfirvöld í Hong Kong taka á málinu og hafa þess í stað sakað Bandaríkin, Bretland og önnur ríki um afskipti.

„Við þurfum ekki einu sinni að láta framkvæma staðreyndaskoðun til að vita að þetta eru falsfréttir,“ hefur Reuters-fréttaveitan eftir einum mótmælendanna. „Ríkisfjölmiðlinum er sama um trúverðugleika sinn. Þeir birta það samstundis í hvert skipti sem þeir segjast hafa frétt eitthvað á WhatsApp eða hjá vini vinar.“

Sendu mótmælendur frá sér yfirlýsingu þess efnis að öllum mótmælum í Hong Kong yrði frestað 11. september, fyrir utan mögulega samstöðusöngva, til að sýna samstöðu gegn öllum tegundum hryðjuverka.

Karen, annar mótmælandi sem Reuters ræddi við, sagði færslu China Daily áhyggjuefni. „Þegar þeir reyna að ramma mótmælin inn með þessum orðum vekur það mér áhyggjur. Þeir eru að segja fyrir um eitthvað frekar en að segja fréttir. Mér fannst gott svar við því að aflýsa mótmælum dagsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert