Óttast um líf sitt

Hús Valeria Gontareva fyrir utan Kænugarð.
Hús Valeria Gontareva fyrir utan Kænugarð. AFP

Valeria Gontareva, sem er fyrrverandi bankastjóri frá Úkraínu, óttast um líf sitt eftir að kveikt var í heimili hennar í nágrenni Kænugarðs og ekið á hana í London í síðasta mánuði.

Gontareva segist í samtali við BBC óttast að ákvörðun hennar um að stærsti viðskiptabanki landsins, Privatbank, yrði yfirtekinn af ríkinu árið 2016 hafi orðið til þess að hún sé skotmark þeirra sem séu ósáttir við þessa ákvörðun hennar. „Ég hef engin sönnunargögn fyrir þessu en ég tel að um tengingu sé að ræða,“ segir hún í viðtali við BBC.

Að sögn Gontareva hefur henni ítrekað verið hótað og að hótanirnar tengist ákvörðuninni um að Privatbank yrði yfirtekinn af ríkinu. Fyrrverandi eigandi Privatbank, Ihor Kolomoisky, neitar því að hann eigi hlut að máli en staðfestir að hún eigi sér marga óvini.

Gontareva ræddi við fréttamann BBC í London þar sem hún býr í dag. Hún er í hjólastól eftir að ekið var á hana þar sem hún fór yfir gangbraut í Knightsbridge. Eins hefur verið kveikt í bíl sonar hennar og kveikt í húsi fjölskyldunnar fyrir utan Kænugarð. 

Frétt BBC

mbl.is