Vill að yfirvöld í Kína rannsaki Biden

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur óskað eftir því opinberlega að yfirvöld í Kína og Úkraínu rannsaki Joe Biden, sem sækist eftir því að verða forsetaefni Demókrataflokksins í komandi forsetakosningum, og son hans Hunter Biden. 

Þetta kom fram í máli forsetans þegar hann var spurður hvað hann vildi nákvæmlega fá frá Volody­myr Zelen­skí, for­seta Úkraínu. 

„Þau [stjórnvöld í Úkraínu] ættu að rannsaka Biden-feðga,“ svaraði Trump og bætti svo við óumbeðinn: „Eins ætti Kína að hefja rannsókn á Biden-feðgum þar sem það sem gerðist þar er alveg jafn slæmt og það sem gerðist í Úkraínu.“

Full­trúa­deild Banda­ríkjaþings ákvað í síðustu viku að rann­saka hvort Trump hafi mögu­lega brotið af sér í embætti með sím­tali til Zelen­skí í sum­ar.

Í sím­tal­inu þrýsti Trump á Zelen­sky að rann­saka Joe Biden, mögu­leg­an mót­fram­bjóðanda í for­seta­kosn­ing­un­um á næsta ári. Fyr­ir sím­talið hafði Trump komið í veg fyr­ir að hundruð millj­óna dala neyðaraðstoð bær­ist til Úkraínu.

Trump segist ekki hafa gert neitt rangt og rannsókn á mögulegum embættisbrotum hans vera nornaveiðar. Þá sakar hann demókrata um valdarán. 

Hann sakar Biden og son hans um spillingu í viðskiptum þeirra í Úkraínu og Kína, meðal annars á Hunter að hafa nýtt stöðu föður síns til að sannfæra Kínverja um að fjárfesta fyrir einn og hálfan milljarð dollara í fjárfestingafélagi sem hann átti hlut í. 

Trump sagðist ekki vera búinn að biðja Xi Jinping, forseta Kína, að hefja rannsókn á feðgunum „enn sem komið er“ en að hann sé að hugsa málið. Þá gaf hann í skyn að feðgarnir hafi stuðlað að því að Kína hafi fengið góðan viðskiptasamning við Bandaríkin, án þess að leggja fram neinar sannanir.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir við blaðamenn fyrir utan Hvíta húsið …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir við blaðamenn fyrir utan Hvíta húsið í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert