„Ég hef aldrei nauðgað konu“

Luc Besson.
Luc Besson. AFP

Franski leikstjórinn og kvikmyndaframleiðandinn Luc Besson neitar því að hafa nauðgað eða byrlað ungum leikkonum ólyfjan. Þetta er í fyrsta skipti sem hann tjáir sig opinberlega um ásakanir á hendur honum um að hafa beitt konur kynferðislegu ofbeldi.

Dómari úrskurðaði á föstudag að hefja ætti að nýju rannsókn á því hvort Besson hafi gerst sekur um nauðgun en fyrir átta mánuðum felldi saksóknari í París niður rannsókn málsins. Það er hollensk/belgíska leikkonan Sand Van Roy, sem sakaði Besson um að hafa nauðgað henni ítrekað á tveggja ára tímabili.

Hún er ein níu kvenna sem segja að Besson hafi annaðhvort beitt hana ofbeldi eða kynferðislegri áreitni. Van Roy fór með aukahlutverk í 2 myndum Besson, Taxi 5 og Valerian and the City of a Thousand Planets. Besson hefur játað að hafa átt í ástarsambandi við Van Roy en neitar ásökunum og segir þær hugaróra hennar. 

„Þetta mál er lygi frá upphafi til enda. Ég nauðgaði ekki þessari konu. Ég hef aldrei nauðgað konu á minni lífsfæddri ævi,“ segir Besson í viðtali við BFMTV.

Hann segist aldrei hafa beitt konu ofbeldi né heldur hótað konu. Hann hafi aldrei byrlað konu ólyfjan. Þetta er allt lygi segir hann í viðtalinu en það verður birt í heild síðar í dag.

Besson játar aftur á móti að hafa átt í sambandi við Van Roy og hafa gert mistök. „Ég sveik eiginkonu mína og börn. Þetta gerðist ekki í eitt skipti heldur nokkur skipti á þessum tuttugu árum sem við höfum verið gift,“ segir hann.

Van Roy leitaði fyrst til lögreglu í maí í fyrra eftir að hafa eytt nóttinni með Besson á lúxushóteli í París. Tveimur mánuðum síðar upplýsti hún um að hann hefði nauðgað henni fjórum sinnum á þessum tveimur árum sem þau hefðu átt í sambandi. Hún hafi óttast um feril sinn ef hún myndi mótmæla. Lögreglan yfirheyrði Besson í október í fyrra vegna málsins. 

mbl.is