Hótar að rústa efnahag Tyrkja

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, og forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, og forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hótar því á Twitter að hann muni rústa efnahag Tyrklands ef Tyrkir gangi lengra en eðlilegt er. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nokkrum færslum forsetans á Twitter þar sem hann ver ákvörðun sína, sem kom mjög á óvart, um að flytja bandaríska hermenn frá norðausturhluta Sýrlands.

Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd, jafnvel meðal flokksbræðra Trump í Repúblikanaflokknum. Með þessu er talið að Trump geri Tyrkjum auðvelt fyrir að ráðast á kúrdíska hermenn yfir landamærin. 

Hersveitir Kúrda voru helstu bandamenn Bandaríkjamanna í baráttunni gegn vígasveitum Ríkis íslams í Sýrlandi.

Frétt BBC

Leiðtogi repúblikana í öldungadeild þingsins, Mitch McConnell, gagnrýndi ákvörðunina, sagði að þeir einu sem hefðu hag af henni væru Rússar, Íranar og ráðamennirnir í Sýrlandi. Repúblikaninn Lindsey Graham kvaðst ætla að beita sér fyrir því að öldungadeild þingsins samþykkti ályktun þar sem það krefðist þess að forsetinn drægi ákvörðunina til baka. Graham sagði að hún væri „stórslys í uppsiglingu“ og það myndi vera „blettur á heiðri Bandaríkjanna að hlaupast frá Kúrdum“. Graham er formaður dómsmálanefndar öldungadeildarinnar og hefur verið á meðal dyggustu stuðningsmanna Trumps á þinginu, að því er fram kemur í frétt Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag.

Nokkrir fleiri þingmenn repúblikana gagnrýndu ákvörðun forsetans. „Flutningur bandarískra hermanna frá norðurhluta Sýrlands er hörmulegt glappaskot sem stefnir góðum árangri okkar í baráttunni gegn Ríki íslams í hættu og ógnar þjóðaröryggi Bandaríkjanna,“ sagði Liz Cheney, þriðji áhrifamesti repúblikaninn í fulltrúadeild þingsins.

Repúblikaninn og öldungadeildarþingmaðurinn Mitt Romney sakaði forsetann um „svik“ sem gætu orðið til þess að Ríki íslams færði sig upp á skaftið í Sýrlandi.

Trump lýsti yfir sigri á Ríki íslams í lok síðasta árs og dró úr þátttöku Bandaríkjahers í átökunum í Sýrlandi, en varnarmálaráðuneytið varaði við því í skýrslu í sumar að samtökin kynnu að rísa úr öskustónni því þau væru að sækja í sig veðrið að nýju í Írak og Sýrlandi.

Um þúsund bandarískir hermenn eru í Sýrlandi og hefur meginverkefni þeirra verið að vinna með hersveitum Kúrda með það að markmiði að koma í veg fyrir að Ríki íslams rísi upp aftur. Trump fyrirskipaði að allt bandaríska herliðið yrði kallað þeim eftir að hann lýsti yfir sigri á Ríki íslams í fyrra og varð sú ákvörðun til þess að Jim Mattis varnarmálaráðherra og nokkrir aðrir embættismenn í Washington sögðu af sér. Ákvörðunin olli miklu uppnámi meðal bandamanna Bandaríkjanna og Trump dró hana til baka eftir að repúblikanar á þinginu tóku undir gagnrýni á hana,“ að því er segir í grein Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag.

Af þeim eitt þúsund bandarísku hermönnum sem eru í Sýrlandi voru rúmlega tveir tugir fluttir á brott frá landamærunum í gær, samkvæmt upplýsingum úr bandaríska stjórnkerfinu. 

Kúrdar lýsa ákvörðun Trumps eins og „hnífstungu í bakið“ og er talið að þetta geti orðið til þess að Ríki íslams vaxi ásmegin á sama tíma og hersveitir Kúrda eigi á hættu að verða fyrir árásum af hálfu Tyrkja sem skilgreina þær sem hryðjuverkamenn. 

Varnarmálaráðherra Tyrkja segir að öllum undirbúningi fyrir aðgerðir Tyrkja í Sýrlandi sé lokið og að stefnt sé að „öruggu svæði“ innan Sýrlands. Slíkt sé mikilvægt fyrir Sýrlendinga og frið á svæðinu. 

En Trump varar Tyrki við því að notfæra sér ekki ákvörðun hans. Ákvörðun sem gengur gegn ráðleggingum helstu stjórnenda varnarmálaráðuneytisins sem og utanríkisráðuneytisins. Hann geti rústað og eyðilagt efnahag Tyrklands.

mbl.is