Sjóðir SÞ að tæmast

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP

Hallinn á rekstri Sameinuðu þjóðanna nemur 230 milljónum Bandaríkjadala, að sögn framkvæmdastjóra SÞ, Antonio Guterres. Hann segir að sjóðir SÞ kunni að tæmast undir lok mánaðar. 

Í bréfi sem hann sendi til starfsmanna Sameinuðu þjóðanna í gær segir Guterres að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að það gerist. Að öðrum kosti verði ekki hægt að tryggja launagreiðslur og að hægt verði að greiða annan kostnað.

Aðildarríkin hafi aðeins lagt til 70% af heildarfjárhæðinni sem þarf til þess að halda uppi hefðbundnum rekstri árið 2019. Þetta valdi því að í lok september nam hallinn á rekstrinum 230 milljónum dala. Með þessu áframhaldi stefni í að varasjóðir SÞ tæmist í lok október.

Meðal sparnaðaraðgerða sem Guterres nefnir er að fresta ráðstefnum og fundum og draga úr þeirri þjónustu sem Sameinuðu þjóðirnar veita. Jafnframt verði starfsmönnum óheimilt að ferðast nema brýna nauðsyn beri til og gripið verði til aðgerða til að draga úr orkunotkun. Hann segir ábyrgðina á þessari grafalvarlegu stöðu vera hjá aðildarríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert