Repúblikanar boða refsiaðgerðir

AFP

Repúblikanar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings ætla að leggja fram frumvarp til laga um refsiaðgerðir gagnvart Tyrkjum vegna hernaðar í Sýrlandi.

Þingkonan Liz Cheney segir að Tyrkir verði að gjalda fyrir að hafa ráðist á miskunnarlausan hátt á bandamenn Bandaríkjamanna, Kúrda, á svæðinu. Þetta kom fram á þingi í gærkvöldi eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagðist vonast til þess að geta stillt til friðar.

Tyrkir hófu á miðvikudag lofthernað og sprengjuárásir á yfirráðasvæði Kúrda í norðanverðu Sýrlandi til að auðvelda innrás sem Donald Trump Bandaríkjaforseti greiddi fyrir með því að fyrirskipa að bandarískir hermenn yrðu fluttir af svæðinu um helgina.

Alls eru flutningsmenn frumvarpsins 29 þingmenn repúblikana í fulltrúardeildinni en demókratar eru með meirihluta í fulltrúadeildinni.

AFP

Tugþúsundir almennra borgara er á flótta undan árásum Tyrkja á bæi í norðurhluta Sýrlands. Neyðarfundur var haldinn í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær vegna hernaðar Tyrkja en hann hefur verið fordæmdur af nánast öllum ríkjum heims. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, segist hafa alvarlegar áhyggjur af ofbeldinu og leiðtogar fimm Evrópuríkja sem eiga fulltrúa í öryggisráðinu hvöttu Tyrki til að hætta hernaði í Sýrlandi.

Það var utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, sem óskaði eftir því að öryggisráðið yrði kallað saman. Ekki síst vegna þess að hersveitir Kúrda skiptu lykilmáli í aðgerðum Bandaríkjahers og fleiri gegn vígasveitum Ríkis íslams í Sýrlandi. 11 þúsund hermenn Kúrda fórust í stríðinu gegn Ríki íslams. Allt þykir þetta minna mjög á upphaf stríðsins í Sýrlandi í mars 2011. Líkt og þá má sjá almenna borgara yfirgefa heimili sín, gangandi með eigur sínar á bakinu eða keyrandi. Talið er að um 70 þúsund hafi þegar flúið heimili sín í vikunni. 

Tyrkir hafa náð völdum í 11 þorpum við landamærin en harðast er barist í kringum Tal Abyad sem er undir yfirráðum Kúrda. Að minnsta kosti 29 hermenn og tíu almennir borgarar eru látnir frá því á miðvikudag. Meðal annars hafa sprengjur tyrkneska hersins hæft fangelsi þar sem vígamenn Ríkis íslams eru í haldi. Einn tyrkneskur hermaður er látinn og þrír særðir. Greint var frá þessu í morgun.

AFP

Forseti Tyrklands hefur lýst áhuga sínum á að koma upp „öruggu svæði“ í Sýrlandi og senda þangað meirihluta þeirra 3,6 milljóna Sýrlendinga sem hafa fengið tímabundið hæli í Tyrklandi. Hann varar Evrópusambandið við því að ef reynt verði að stöðva innrás Tyrkja muni þeir opna dyr og senda 3,6 milljónir flóttamanna til ríkja ESB.

Mannúðarsamtök vara við afleiðingum af hernaði Tyrkja en um 450 þúsund manns búa á þessu svæði, það er í innan við 5 km fjarlægð frá landamærum Tyrklands og Sýrlands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert