69 féllu í árás á mosku í Afganistan

Bardagamenn Talíbana og Íslamska ríkisins starfa í Nangarhar. Myndin tengist …
Bardagamenn Talíbana og Íslamska ríkisins starfa í Nangarhar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. MASSOUD HOSSAINI

Að minnsta kosti 69 manns féllu í sprengjuárás á mosku í austurhluta Nangarhar héraðs í Afganistan í gær. Lögregla og íbúar leita nú að fólki í rústum moskunnar. Guardian greinir frá þessu. 

Sohrab Qaderi, meðlimur í héraðsráði Nangarhar, sagði að moskan, sem rúmar meira en 150 manns, hafi verið full af fólki þegar sprengjurnar sprungu.

„69 lík hafa fundist, þar á meðal lík barna og eldra fólks. Þeim hefur nú verið komið til ættingja sinna,“ sagði Qaderi og bætti við að fleiri lík gætu legið undir rústunum.

Ríkisstjórnin vísar á talibana en talibanar á ríkisstjórn

Engin samtök hafa lýst yfir ábyrgð á verknaðinum. Ríkisstjórn Afganistan hefur skellt skuldinni á uppreisnarmenn talibana. Þeir hafa barist fyrir því að sett séu á ný og strangari íslömsk lög frá því að þeim var komið frá völdum árið 2001. 

Suhail Shaheen, talsmaður talibana, hefur þvertekið fyrir það að hópurinn sé ábyrgur. Á Twitter hafði hann eftir vitnum að árásin hafi verið framin af stjórnvöldum. 

Bardagamenn talibana og Íslamska ríkisins starfa í Nangarhar en í austurhluta héraðsins eru landamæri Afganistan og Pakistan. Árásin í gær er nýlegasta stóra ofbeldisverkið í landinu. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kom út í vikunni kom fram að 4.313 óbreyttir borgarar hefðu látið lífið í stríði í Afganistan frá júlí til september í ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert