Embættismaður blæs byr í segl demókrata

Bill Taylor, starfandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, mætir hér fyrir …
Bill Taylor, starfandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, mætir hér fyrir þingnefndina í dag. AFP

Bill Taylor, starfandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, kom fyrir þingnefnd í Washington í dag og sagði að Donald Trump Bandaríkjaforseti og embættismenn í ríkisstjórn hans hefðu lagt hart að stjórnvöldum í Kænugarði að rannsaka Joe Biden, allt frá því Volodimír Zelenskí var kjörinn forseti Úkraínu.

Framburður Taylor fór fram fyrir luktum dyrum, en fimmtán blaðsíðna langri yfirlýsingu sem hann las upp í upphafi vitnisburðar síns hefur verið lekið til bandarískra fjölmiðla. Þeir hafa flutt fréttir af því sem þar kom fram og virðist sem vitnisburður sendiherrans renni stoðum undir margt af því sem Trump hefur verið sakaður um að undanförnu af hálfu demókrata, sem rannsaka hvort ákæra skuli forsetann til embættismissis.

Taylor sagði að grafið hefði verið undan sambandi Úkraínu og Bandaríkjanna með óvenjulegum og óformlegum boðleiðum bandarískra embættismanna við Úkraínumenn og með frystingu nauðsynlegrar varnarmálaaðstoðar Bandaríkjanna til Úkraínu á pólitískum forsendum.

Ríkisstjórn Trumps hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem vitnisburði …
Ríkisstjórn Trumps hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem vitnisburði Taylor er lýst sem rógburði. AFP

Á meðal þeirra bandarísku embættismanna sem Taylor sagði að hefðu verið í óvenjulegum samskiptum við úkraínsk yfirvöld voru Kurt Volker, sérstakur fulltrúi sendinefndar Bandaríkjanna í Úkraínu, Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna hjá ESB, orkumálaráðherrann Rick Perry og Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður forsetans.

Fundur og varnarmálaframlag háð skilyrðum

Taylor sagði að það hefði orðið honum ljóst að fundur Zelenskí og Trump, sem sá fyrrnefndi vildi gjarnan halda, hefði verið háður því að Úkraínumenn tilkynntu um rannsókn á orkufyrirtækinu Burisma (sem sonur Biden starfaði fyrir) og meintum úkraínskum áhrifum af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016.

Þá kom fram í máli hans að starfsmaður Hvíta hússins hefði tjáð honum að fyrirmæli hefðu borist að ofan, beint frá forsetanum, um að veita Úkraínu ekki frekari varnarmálastuðning um óákveðinn tíma.

Taylor segist hafa átt samtal við Sondland sendiherra um þetta mál og hefur eftir honum að bæði fundur forsetanna tveggja og varnarmálaframlög til Úkraínu væru háð því að Zelenskí forseti myndi senda frá sér yfirlýsingu um að ráðist yrði í þær rannsóknir sem Trump óskaði. 

Ólík viðbrögð

Demókratar í fulltrúadeild þingsins sem á þetta hlýddu segja að vitnisburður Taylor hafi staðfest allar þeirra ásakanir um að Trump hafi misnotað embætti sitt með því að leita liðsinnis erlendis frá til þess að skaða pólitískan andstæðing heima fyrir.

Ríkisstjórn Trumps segir í yfirlýsingu vegna vitnisburðar Taylors að um skipulagða rógsherferð sé að ræða af hálfu „öfgavinstrisinnaðra þingmanna og róttækra ókjörinna embættismanna“. Um sögusagnir og valkvæða leka sé að ræða af lokuðum fundum demókrata, sem séu ekkert nema sóun á tíma og peningum bandarískra skattgreiðenda.

Frétt BBC um málið

mbl.is