Bók seiðmannsins, kærasta Noregsprinsessu, sögð skaðleg

Durek Verret.
Durek Verret.

Norska útgáfufélagið Cappelen hefur hætt við að gefa út bók eftir seiðmanninn Durek Verrett, sem er kærasti Mörtu Lovísu Noregsprinsessu. Knut Ola Ulvestad, forstjóri forlagsins, segir í samtali við norska dagblaðið Verdens Gang að kenningar Dureks geti verið skaðlegar og hann vilji ekki bera ábyrgð á því að fólk taki þær bókstaflega.

Marta Lovísa Noregsprinsessa og nýr unnusti hennar, bandaríski heilarinn Durek …
Marta Lovísa Noregsprinsessa og nýr unnusti hennar, bandaríski heilarinn Durek Verrett. AFP

Umrædd bók heitir Spirit Hacking og undirtitill hennar er „Aðferðir seiðmannsins til að endurheimta persónulega orku“. Hún hefur þegar komið út á fjölda tungumála, hún hafði verið þýdd á norsku úr ensku og átti að koma út núna í október. Þegar forstjórinn áttaði sig á því að í bókinni væru margar vafasamar fullyrðingar, m.a. um að börn fái krabbamein vegna þess að þau séu óhamingjusöm, var þegar í stað hætt við útgáfuna. 

Marta Lovísa Noregsprinsessa birti mynd af sér með nýjum kærasta, …
Marta Lovísa Noregsprinsessa birti mynd af sér með nýjum kærasta, Shaman Durek, á Instagram. Skjáskot/Instagram

Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt ákvörðun útgáfufélagsins er Marta Lovísa Noregsprinsessa. Á Instagram-síðu sinni segir hún bókina einstaka og hún geri þá sem lesi hana að betra fólki. „Hættið að elta það sem aðrir segja,“ skrifar prinsessan og segist vera stolt af seiðmanninum, kærasta sínum.

Marta Lovísa er eldra barn Har­aldar 5. kon­ungs og Sonju drottn­ing­ar og fjórða í erfðaröð norsku krún­unn­ar, á eft­ir Há­koni bróður sín­um og börn­um hans. Hún gift­ist norska rit­höf­und­in­um Ari Behn árið 2002 en þau fengu lögskilnað 2017. Hún kynnti Verret sem unnusta sinn á samfélagsmiðlum í maí síðastliðnum og greindi síðan frá því að þau hygðust fara sam­an í fyr­ir­lestra­ferð und­ir yf­ir­skrift­inni „Prins­ess­an og seiðmaður­inn“ þar sem þau fjalla um andleg málefni. Í kjölfarið var prinsessan hvött til að af­sala sér prins­essu­titl­in­um vegna þess að hún væri að nota hann til að markaðssetja fyr­ir­tæki sitt.

Marta Lovísa af­salaði sér titl­in­um „kon­ung­leg há­tign“ og líf­eyri frá kon­ungs­höll­inni árið 2002 og sagðist þá vilja frelsi til að sinna áhuga­mál­um sín­um. Síðan þá hefur hún m.a. rekið englaskóla og skrifað bækur um engla.

Snýst um siðferði

„Þessi ákvörðun snýst um siðferði. Að hugsa með hjartanu,“ sagði Ulvestad í samtali við Verdens Gang. „Þegar ég las í gegnum kaflann þar sem fjallað er um krabbamein sá ég að það kæmi ekki til greina að gefa þessa bók út. Ef fólk tæki bókstaflega það sem þarna er haldið fram, þá gæti það verið hreint út sagt lífshættulegt,“ segir Ulvestad. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert