„Erfið og sársaukafull ákvörðun“

„Þegar faðir á í vandræðum verður hann alltaf að setja …
„Þegar faðir á í vandræðum verður hann alltaf að setja fjölskyldu sína í fyrsta sæti. Það sama gildir um forseta, hann verður alltaf að setja samlanda sína í fyrsta sæti, á undan öllu öðru,“ sagði Piñera. AFP

„Þetta var mjög erfið og sársaukafull ákvörðun því við vitum alveg hversu mikilvæg APEC og loftslagsráðstefnan eru fyrir Síle og heiminum öllum,“ sagði Sebastián Piñera forseti Síle í dag um ákvörðun um að hætta við að halda tvo gríðarstóra leiðtogafundi. 

Ákvörðunin var tekin í dag en ráðamenn í Síle berjast nú í bökkum við að koma jafnvægi á í landinu eftir meira en 10 daga af borgaralegri ólgu sem að minnsta kosti 20 manns hafa látið lífið í. 

„Þegar faðir á í vandræðum verður hann alltaf að setja fjölskyldu sína í fyrsta sæti. Það sama gildir um forseta, hann verður alltaf að setja samlanda sína í fyrsta sæti, á undan öllu öðru,“ bætti Piñera við. 

Hann sagði sömuleiðis að almenn skynsemi hafi ráðið ákvörðuninni en hún lítur að því að Síle dragi sig bæði út úr leiðtogafundi Asíu og Kyrra­hafs­ríkja, APEC, og lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna.

Trump ætlaði sér að semja á APEC

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur áður sagt að hann hafi ætlað að hitta Xi Jinping, forseta Kína, á APEC og skapa fyrsta áfanga að samkomulagi milli ríkjanna. Fundinn átti að halda 16. og 17. nóvember. Ef fyrirætlanir Trumps hefðu gengið eftir hefði það bundið endi á 18 mánaða viðskiptastríð milli tveggja stærstu hagkerfa heims, Bandaríkjanna og Kína. 

Hvíta húsið sagðist hlakka til að ganga frá samningi innan sama tíma ramma þó sérfræðingar frá ráðgjafafyrirtækinu Eurasia Group hafi staðhæft að samningar myndu líklega ekki nást fyrr en í árslok. 

Mikil ólga er í Síle þessa dagana.
Mikil ólga er í Síle þessa dagana. AFP

Forsvarsmenn APEC hafa sagst styðja ákvörðun yfirvalda í Síle en þeir hafa þó ekki gefið neitt uppi um það hvort leiðtogafundurinn verði haldinn annars staðar í ár. Fundurinn verður þó haldinn í Malasíu að ári. 

Vladimir Putin, forseti Rússlands, hafði ætlað að mæta á fund APEC og Greta Thunberg var á meðal 25.000 gesta sem höfðu boðað komu sína á loftslagsráðstefnuna.

Eftir meira en 10 daga mótmæli sagði Sebastián Piñera, forseti Síle, að landið væri ekki í stakk búið til að halda leiðtogafundina tvo. Talið er að ákvörðunin verði áfall fyrir ferðaþjónustu Síle. Gjaldmiðill Síle, pesóinn, féll á dögunum í lægsta gengi gagnvart dollara síðan árið 2003. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert