Þurftu að ná notandanum með fyrsta skammti

Þegar þær komu fyrst á markað markaðssetti Juul rafretturnar sem …
Þegar þær komu fyrst á markað markaðssetti Juul rafretturnar sem flottan valkost við sígarettur. AFP

Forsvarsmönnum Juul rafrettuframleiðandans var vel kunnugt um að ungmenni voru stór hluti notendahóps fyrirtækisins strax þegar fyrirtækið sendi frá sér fyrstu rafretturnar árið 2015. Þetta fullyrðir fyrrverandi stjórnandi hjá fyrirtækinu í samtali við Reuters fréttaveituna.

Segir í ítarlegri umfjöllun Reuters um Juul að nikótínblanda fyrirtækisins hafi verið svo áhrifarík að verkfræðingar fyrirtækisins sáu ástæðu til að hanna sérstakan hnapp sem gat takmarkað skammtastærðina. Sú hugmynd komst þó aldrei í framkvæmd.

Félagarnir James Monsees og Adam Bowen fengu hugmyndina af Juul rafrettunum árið 2004 er þeir skruppu út í sígarettupásu þar sem þeir voru í framhaldsnámi. Veltu þeir þar fyrir sér hversu litlum breytingum sígarettur hefðu tekið frá því þær rötuðu fyrst á markað. Síðar stofnuðu þeir fyrirtæki sem á endanum varð Juul.

Gerðu tilraunir á sjálfum sér

Reuters segir markmið Juul hafa strax á þróunarferlinu verið að að ná notendum á sitt vald með fyrsta rafrettuskammtinum. Forsvarsmenn Juul höfðu nefnilega áður  komist að þeirri niðurstöðu að neytendur hefðu fram að því flestir hafnað eldri gerðum rafretta þar sem nikótín skammturinn væri ekki nógu stór, eða í þeim tilfellum sem hann var það þá var eftirbragðið of rammt.

Þróunardeild Juul leitaði hins vegar lausna á þessum vanda með því að leggjast yfir rannsóknir sígarettuframleiðenda sem gerðar höfðu verið opinberar í kjölfar dómsmála gegn fyrirtækjunum. Svarið reyndist svo felast í því að bæta lífrænni sýru saman við nikótínið, en með því náðist bæði fram mjúkt bragð og kröftugur nikótín skammtur.

Starfsmenn Juul gerðu svo tilraunir á nýju nikótín blöndunum, bæði með því að prófa þær sjálfir og eins með því að bjóða þær fólki sem þeir sáu reykja á götum úti. Stundum var blandan of sterk og gat þá valdið því að hendur sumra „tilraunadýranna“ titruðu eða leiddi til uppkasta samkvæmt heimildamanni Reuters.

Þegar rétta blandan fannst flutti hún nikótínið svo fyrirhafnalaust inn í blóðrásina að verkfræðingar fyrirtækisins veltu því fyrir sér að koma fyrir hnappi sem kæmi í veg fyrir að notendur fengju of mikið nikótín of hratt.

Juul rafrettuframleiðandinn hefur m.a. verið gagnrýndur vegna bragðtegunda sem sagðar …
Juul rafrettuframleiðandinn hefur m.a. verið gagnrýndur vegna bragðtegunda sem sagðar eru geta höfðað til barna. AFP

Sóttu um einkaleyfi á rafrettuhnappinum

Sótti fyrirtækið meira að segja um einkaleyfi árið 2014 fyrir tækni sem átti annað hvort að láta notendur vita, eða með því að slökkva á tækinu þegar ákveðin nikótín skammtur hefði verið innbyrtur.

Engin rafretta með slíkum búnaði fór þó nokkrum sinnum á markað. „Ég vona að þeir [notendur] fái það sem þeir vilji og hætti svo,“ sagði vísindamaðurinn Chenyue Xing sem vann með Juul að framleiðslu nikótínblöndu fyrirtækisins. „Við vildum ekki setja á markað nýja vöru sem eykur líkur á fíkn“.

Juul, sem átti hefur stóran þátt í vinsældum rafrettna í Bandaríkjunum, er nú í kastljósinu vegna spurninga sem vaknað hafa um öryggi þeirra, sem og vegna þess faraldurs nikótínnotkunar sem rafretturnar hafa leitt til hjá ungmennum.

Til þessa hefur athygli stjórnvalda aðallega beinst að því hvort að Juul og aðrir rafrettuframleiðendur hafi beint markaðssetningu sinni að ungmennum, til að mynda með sölu nikótínvökva sem bragðist eins og creme brulée eða mangó.

Ræddu frá upphafi um ávanabindingu

Rannsókn Reuters sýnir hins vegar að strax frá upphafsdögum Juul hafi stjórnendur rætt sín á milli um áhyggjur af styrk og ávanabindingu rafrettnanna.

Er nikótínblandan sem gerði Juul rafretturnar svo ávanabindandi og leiddi jafnframt til sprengingar í markaðsvirði fyrirtækisins einnig sögð hafa gert rafretturnar að freistandi kosti fyrir unglinga og aðra sem að öðrum kosti hefðu ekki reykt. Þetta kemur m.a. fram í viðtölum sem gerð voru við tugi tóbakssérfræðinga og barnlækna. Rafrettan með þessar blöndu, skilar nefnilega nikótíninu með áhrifaríkari hætti út í líkamann en hefðbundin sígaretta gerir.

Tveir sérfræðingar í tóbaksrannsóknum segjast þá hafa varað stofnendur Juul við mögulegri hættu á misnotkun ungmenna á rafrettum. Fyrirtækið hefur hins vegar neitað að tjá sig um það hvort það hafi hlotið slíkar viðvaranir.

Í skriflegu svari fyrirtækisins við fyrirspurn Reuters segja forsvarsmenn Juul fyrirtækið þó aldrei hafa ætlað að vekja áhuga einstaklinga undir lögaldri. Kveðst fyrirtækið ennfremur þurfa að vinna aftur traust löggjafa, þingmanna, samfélagsins í heild og þeirra sem hlut ættu að máli í ljósi þess þeirra „óásættanlegu hæða“ sem rafrettunotkun unglinga hefði náð.

Fyrirtækið neitaði hins vegar að tjá sig um það hvers vegna hnappurinn sem átti að hindra of mikla upptöku nikótíns var aldrei settur á rafretturnar. Þess í stað sagði það rafretturnar vera hannaðar til að líkast sígarettum því það væri leiðin til að höfða til reykingafólks.

Vísaði fyrirtækið því næst til rannsókna sem það lét vinna sem sýna að notendum Juul rafrettna gangi betur að hætta að reykja en þeir sem reynt höfðu fyrri gerðir rafrettna.

Juul rafretta. Nikótínblanda fyrirtækisins er sögð svo áhrifarík að verkfræðingar …
Juul rafretta. Nikótínblanda fyrirtækisins er sögð svo áhrifarík að verkfræðingar fyrirtækisins sáu ástæðu til að hanna sérstakan hnapp sem gat takmarkað skammtastærðina. Sú hugmynd komst þó aldrei í framkvæmd. AFP

Kynntu ávanabindinguna fyrir verslunum

Þegar þær komu fyrst á markað markaðssetti Juul rafretturnar sem flottan valkost við sígarettur. Notaðir voru bjartir litir, fyrirsæturnar voru ungar og neytendur voru hvattir til að deila Juul stundunum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #Juulmoment.

Mikið magn slíks efnis rataði á samfélagsmiðla frá notenum í upphafi, en fyrirtækið fór síðar fram á það við forsvarsmenn samfélagsmiðla að það yrði fjarlægt.

Á sama tíma var söludeildin að kynna verslunum, sem voru tregar í ljósi fyrri reynslu til að að taka rafretturnar í sölu, hversu ávanabindandi þær væru. Vincent Latronica, sem var yfirmaður sölusviðs Juul á Austurströnd Bandaríkjanna á árabilinu 2014-2016 segir verslunareigendum hafa verið sýnd sérstök gröf sem sýndu hvernig nýju rafretturnar sendu nikótín út í blóðið af engu minni krafti en hefðbundnar sígarettur.

Á slíkum gröfum kom m.a. fram að rafrettan sendi meira nikótín út í blóðið en Pall Mall sígaretta. Í svörum sínum til Retuers segir Juul nú vörur sínar gefa örlítið minna nikótín en hefðbundin sígaretta.

 „Það vildu allir fá þær,“ rifjar Latronica upp.

Fengu símtöl frá ungmennum sem vildu kaupa meira

Strax frá upphafi kom í ljós að Juul höfðaði sterklega til ungmenna og segir heimildamaður Reuters starfsmenn fyrirtækisins m.a. hafa farið að fá símtöl frá unglingum sem vildu vita hvar þeir gætu keypt meira.

Segir hann þessi fyrstu merki um notkun ungmenna á rafrettunum hafa leitt til umræðna innan fyrirtækisins. Segir hann suma stjórnendur, m.a. stofnandan James Monsees hafa hvatt til þess að reynt yrði að hindra sölu til ungmenna. Ýmsir aðrir stjórnendur, m.a. heilsufrumkvöðullinn  Hoyoung Huh og nokkrir til viðbótar sem lögðu fyrirtækinu snemma til fé sögðu hins vegar ekki hægt að kenna fyrirtækinu um nikótínfíkn ungmenna. Það væri nefnilega ekki ætlun fyrirtækisins að höfða til unglinga í auglýsingum eða selja þeim.

„Augljóslega þá átti fólk innan fyrirtækisins í erfiðleikum með þetta,“ segir heimildamaðurinn. „Margir höfðu hins vegar ekkert á móti 500% ársvexti.“

Forsvarsmönnum fyrirtækisins var líka vel kunnugt um kosti þess að ná til ungra neytenda, þar sem þekkt er úr sögu tóbaksiðnaðarins að þetta séu notendurnir sem mestur hagnaður sé af. Þeir sem ánetjist nikótíni á unglingsaldri séu nefnilega líklegastir til að neyta þess ævina á enda.

Í svörum Juul til Reuters kannast fyrirtækið ekki við að rætt hafi verið um að stöðva sölu til ungmenna og var það ekki fyrr en í apríl í fyrra, vegna þrýstings frá eftirlitsaðilum og þingheimi að Juul tilkynnti að fyrirtækið hefði „alhliða áætlun“ um að draga úr sölu til ungmenna.

„Eins og ég væri að missa vitið“

Rannsókn sem gerð var mánuðinn á undan sýndi hins vegar að þann mánuð höfðu rúmlega þrjár milljónir, eða 20%, bandarískra framhaldsskólanema prufað að veipa. Rúmur fjórðungur þess hóps sagðist veipa 20 sinnum í mánuði eða oftar. Þegar sambærileg rannsókn var svo gerð í september á þessu ári höfðu 27,5% bandarískra háskólanema prufaði að veipa mánuðinn á undan.

Alls nota nú yfir 3,6 millj­ón­ir banda­rískra ung­menna rafrett­ur.

Sambland „mjög, mjög ávanabindandi vöru og heila sem er enn að þroskast hefur hættulegar afleiðingar,“ segir Bonnie Halpern-Felsher, prófessor í barnalækningum við læknadeild Stanford háskóla. „Í stað þess að heilinn upplifi ánægju við líkamsrækt eða sambönd þá endurforritast hann í upplifa ánægju í gegnum nikótín.“

William Smith, framhaldsskólanemi frá Newburyport í Massachussetts, upplifði að þráhyggja hans gagnvart Juul rafrettunum tók yfir flestar hans vökustundir. Það leiddi svo til þess að hann fór nærri því að falla í skóla og upplifði miklar skapsveiflur. Hann prófaði fyrstu rafrettuna þegar hann var í tölvuleik með vini sínum sumarið 2017 og gat fljótlega ekki losnað við fíknina. Ári síðar veipaði hann því sem jafngilti pakka af sígarettum á dag. „Þetta hafði algjöra stjórn á mér,“ segir Smith. Það var eins og ég væri að missa vitið.“

Susanne Tanski, barnalæknir og fyrrverandi formaður tóbaknefndar samtaka bandarískra barnalækna segist ásamt kollegum sínum hafa tekið eftir að rafrettuneytendur geti náð sambærilegri ávanabindingu á tveggja mánaða tímabili og það tæki hefðbundna reykingamenn rúm tvö ár að ná.

Rannsókn sem bandaríski háskólinn í Beirút framkvæmdi sýndi að 15 …
Rannsókn sem bandaríski háskólinn í Beirút framkvæmdi sýndi að 15 „smókar“ af Juul rafrettu innihaldi 15% meira nikótín en sígaretta af tegundinni Marlboror Red. Mynd úr safni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Eins og Marlboro á sterum

Rannsókn sem bandaríski háskólinn í Beirút framkvæmdi sýndi að 15 „smókar“ af Juul rafrettu innihaldi 15% meira nikótín en sígaretta af tegundinni Marlboro Red. Vísindamenn við Portland State háskólann vinna nú að sambærilegri rannsókn og segja þeir niðurstöður hennar benda til að efnafræði nikótínblöndunnar í rafrettunni sé næstum nákvæmlega jafn ávanabindandi og Marlboro sígarettan.

„Telji maður Marlboro sígarettur slæmar af því að þær eru ávanabindandi, þá er þetta eins og Marlboro á sterum,“ segir James F. Pankow prófessor í efnaverkfræði við háskólann. „Með rafrettunum er lyktin fjarlægð, umbúðirnar eru meira aðlaðandi og það er ekki verið að kveikja eld. Þær hafa allar jákvæðu hliðarnar og margar þeirra neikvæðu eru fjarlægðar.“

Sígarettur komi nikótíninu líka hratt og vel niður í lungun sem sé beinasta leiðin til heilans. Hluti reyksins verði þó eftir í munni og hálsi við hefðbundnar reykingar og óþægindi vegna þess hægi á reykingunum. „Ólíkt hefðbundnum sígarettum veita rafretturnar hins vegar háan nikótín skammt án slíkra særinda,“ segir Ted Wagener, tóbakssérfræðingur við Ohio State University.

Um 530 manns hafa veikst eft­ir notk­un á rafrett­um í Banda­ríkj­un­um, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá banda­rísk­um heil­brigðis­yf­ir­völd­um og eitt slíkt til­vik er nú til rann­sókn­ar hér á landi. 

mbl.is