Upplifir Twitter skilaboð Trump sem ógnandi

Marie Yovanovitch, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, við vitnaleiðslur í …
Marie Yovanovitch, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, við vitnaleiðslur í fulltrúadeild þingsins í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt úti árásum á Marie Yovanovitch, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, á Twitter á sama tíma og hún bar í dag vitni fyrir þinginu.

Dagurinn í dag er þriðji dagur í vitnaleiðslum fulltrúadeildar þingsins vegna rannsóknar á embættisverkum forsetans vegna þrýstings sem hann er talinn hafa beitt úkraínsk stjórnvöld að taka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og forsetaframbjóðanda til rannsóknar.

„Hvert sem Marie Yovanovitch fór urðu hlutirnir slæmir,“ skrifaði Trump. „Hún byrjaði í Sómalíu og hvernig endaði það?“

Þegar Adam Schiff, demókrataþingmaður og formaður njósnanefndar, spurði Yovanovitch út í sín viðbrögð við færslunni sagði hún hana vera „mjög ógnandi“.

Hún svaraði því næst þeim hluta færslunnar þar sem Trump virðist kenna henni um umrót í Sómalíu. „Ég held ekki að ég hafi slíkt vald, ekki í Mogadishu eða Sómalíu eða á öðrum stöðum,“ sagði Yovanovitch.

„Ég tel raunar að í þeim löndum þar sem ég hef þjónað í gegnum árin að þá hafi ég og aðrir gert hlutina sýnilega betri, bæði fyrir Bandaríkin og löndin sem ég hef starfað í.“

Færslurnar alls ekkert ógnandi

Schiff, sem hefur yfirumsjón með vitnaleiðslunum, gaf í skyn í dag að hægt væri að skilgreina Twitter skilaboð forsetans sem ógnun gegn vitni.

Trump brást síðar í dag við þeim orðum Yovanovitch að færslan væri ógnandi og fullyrti að Twitter færslur hans væru alls ekkert ógnandi.

Sagði forsetinn á fundi með fréttamönnum síðar í dag að hann hefði fylgst með vitnaleiðslunum og að hann teldi þær „hneyksli“.

Trump hefur neitað því alfarið að hafa gert eitthvað rangt í samskiptum sínum við Úkraínu og hefur sagt rannsókn þingsins vera áreiti í garð forseta. 

Yovanovitch var látinn víkja úr embætti sendiherra tveimur mánuðum áður en Trump átti umdeilt símtal sitt við forseta Úkraínu, þar sem hann hvatti til þess að Biden yrði tekinn til rannsóknar.

Hún sagði þinginu í dag að hún hefði verið fórnarlamb óhróðursherferðar Rudy Giuliani, einkalögfræðings Trumps. Sagði hún Giuliani hafa reynt að gera sig tortryggilega á sama tíma og hann þrýsti á um að úkraínsk yfirvöld tækju Biden til rannsóknar.

mbl.is