Stjórnlausir vítiseldar æða áfram

Breytilegar vindáttir hafa hamlað tilraunum ástralskra slökkviliðsmanna til að reyna að hefta útbreiðslu gróðureldanna sem nú geisa í suðausturhluta landsins. Hvass vindur blæs úr suðri og óttast fylkisyfirvöld í Nýja Suður-Wales að það gæti leitt til mikilla hörmunga.

Morgunn er nú að renna upp í Ástralíu og samkvæmt frétt ABC í Ástralíu eru slökkviliðsmenn handvissir um að mörg hús hafi orðið eldinum að bráð í nótt, en ekki sé hægt að leggja mat á tjónið ennþá.

Myndin hér að neðan sýnir drungalegan himininn yfir bænum Bega í Nýja Suður-Wales.

Hitamet féllu

Hitamet voru slegin í dag á þeim slóðum þar sem eldarnir brenna af sem mestum krafti. Í Penrith, úthverfi vestan við Sydney, náði hitinn 48,9 gráðum og í höfuðborginni Canberra fór hitinn upp í 44 stig, samkvæmt áströlsku veðurstofunni. Aldrei hefur verið jafn heitt á þessum slóðum.

3.000 hermenn hafa verið kallaðir út til þess að berjast við gróðureldana og yfir eitt hundrað þúsund manns hefur verið ráðlagt eða fyrirskipað að yfirgefa heimkynni sín.

Margir leita skjóls í borgum og stærri bæjum þar sem öryggið er talið meira og þéttar bílaraðir voru frá minni plássum við suðausturströndina í dag.

Frá bænum Moruya, sunnan við Batemans Bay í Nýja Suður-Wales …
Frá bænum Moruya, sunnan við Batemans Bay í Nýja Suður-Wales í dag. AFP

Bjarga þurfti hundruðum íbúa af ströndinni í bænum Mallacoota í Viktoríufylki, samkvæmt frétt BBC, en eldur hafði lokað öllum öðrum leiðum frá bænum. Tvö herskip tóku þátt í rýmingu Mallacoota.

Eldarnir árið 1994 eins og „grillveisla“ í samanburði

Í bænum Batemans Bay hefur ástandið verið hörmulegt. Íbúar hafa tekið þátt í því að berjast við eldana ásamt slökkviliðsmönnum og lýstu deginum í samtali við AFP-fréttastofuna er kvöld var að verða að nóttu.

„Í dag höfum við upplifað hamfarir,“ sagði Adam Pike, íbúi í bænum. Hann sagði að sunnanáttin hefði gert þeim erfitt fyrir að takast á við eldana í gríðarlegum hitanum. „Menn sem þekkja gróðurinn, menn sem þekkja eld, hjálpuðu til við að bjarga að minnsta kosti 10-12 heimilum á þessari götu ... við erum svo þakklát fyrir þeirra hjálp,“ sagði Pike.

Þyrla sleppir vatni á elda nærri Batemans Bay.
Þyrla sleppir vatni á elda nærri Batemans Bay. AFP

Batemans Bay er ferðamannastaður, venjulega fullur af lífi, en ekki í dag né síðustu daga. Hundruð íbúa bæjarins og nágrannasveitarfélaga hafast við í tjöldum og ferðavögnum á túni, fjarri skóginum og heimilum sínum.

Mick Cummins og kona hans flúðu þangað þegar eldtungurnar gengu í gegnum heimabæ þeirra í nágrenninu á gamlárskvöld. „Við sögðum: þetta er of erfitt fyrir okkur, förum. Við fórum á ströndina og svo komu vítiseldarnir yfir hæðina. Ég var hérna í eldunum árið 1994. Ég hélt að það væri slæmt, en það var bara grillveisla í samanburði,“ sagði Cummins.

Íbúar í bænum Jindabyne í Nýja Suður-Wales kældu sig í …
Íbúar í bænum Jindabyne í Nýja Suður-Wales kældu sig í stöðuvatni í dag undir appelsínugulum himninum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert