Gögn benda til að Tor hafi grandað vélinni

AFP

Leiðtogar vestrænna ríkja fara fram á að ítarleg rannsókn fari fram á því hvað varð til þess að úkraínska farþegaþotan brotlenti og allir um borð, 176 manns, fórust. Bandarísk yfirvöld og fleiri ríki segja að upplýsingar leyniþjónustu ríkjanna bendi til þess að Íranar hafi skotið þotuna niður. Írönsk yfirvöld segja að þeir beri ekki ábyrgð á flugslysinu. 

Talið er að farþegaþotan hafi verið skotin niður fyrir mistök en hún brotlenti skömmu eftir að Íranar skutu eldflaugum á herstöðvar sem hýsa bandaríska hermenn og hermenn frá bandalagsríkjum þeirra í Írak. Var um hefndaraðgerð að ræða fyrir dráp Bandaríkjahers, að beiðni forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, á einum æðsta herforingja Írana sem var staddur í Írak.

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, segir mikilvægt að flugslysið verði rannsakað í þaula til þess að öllum vafa verði eytt um hvað hafi valdið því. „Við gerum okkur grein fyrir að þetta gæti hafa verið gert fyrir slysni,“ sagði Trudeau á blaðamannafundi í Ottawa. 

Trump sagði í gær að hann grunaði að farþegaþotan hafi verið skotin niður fyrir mistök. Leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna eru sannfærðar um að tveimur eldflaugum hafi verið skotið úr loftvarnakerfi Írana, sem er rússneskt, á þotuna.

Bandarískir fjölmiðlar hafa ýjað að því að hvenær þotan fórst geti bent til þess að Íranar hafi talið að um bandaríska herþotu væri að ræða og að Bandaríkjamenn væru að bregðast við loftárásum þeirra á skotmörk í Írak. 

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ekki sent neina yfirlýsingu frá sér vegna málsins en Newsweek hefur eftir háttsettum einstaklingum innan ráðuneytisins sem og leyniþjónustu Bandaríkjanna og leyniþjónustu Íraks að talið sé að flug PS752 hafi orðið fyrir rússneskri eldflaug, Tor.

Írönsk yfirvöld höfðu lýst því yfir að flugritar farþegaþotunnar yrðu ekki afhentir bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing til rannsóknar. Aftur á móti hefur Reuters-fréttastofan fengið staðfest að Bandaríkjunum hafi formlega verið boðið að taka þátt í rannsókn á flugslysinu og bandaríska flugslysanefndin hafi staðfest að hún muni taka þátt í rannsókninni. Eins hefur Boeing staðfest aðild að rannsókninni sem og flugslysanefnd Kanada. 

Samkvæmt alþjóðlegum flugreglum hefur Íran rétt til þess að leiða rannsóknina en yfirleitt eru framleiðendur flugvélarinnar með í rannsókninni. 

Áður en bandarísk yfirvöld greindu frá grunsemdum um að farþegaþotan hefði líklega verið skotin niður sagði Oleksj Danílov, yfirmaður öryggis- og varnarráðs Úkraínu, á Facebook að þrjár skýringar væru mögulegar á flugslysinu: Að farþegaþotan hefði lent í árekstri við dróna eða einhvern annan fljúgandi hlut. Vélarbilun eða sprenging vegna tæknilegra ástæðna og í þriðja lagi hryðjuverk þar sem sprengja sprakk um borð.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert