Handtekinn með 20 fugla í ferðatösku

Fuglarnir voru allir af friðlýstri tegund.
Fuglarnir voru allir af friðlýstri tegund. AFP

Belgískur maður var handtekinn á flugvellinum í Líma í Perú á dögunum, en við leit í ferðatösku hans fundust 20 lifandi fuglar í pappakössum.

Maðurinn, sem heitir Hugo Conings og er 54 ára gamall, er grunaður um að hafa ætlað að smygla fuglunum úr landi. Hann átti bókað flug til Madrídar á Spáni, þar sem hann er sagður hafa ætlað að selja fuglana. Fuglarnir voru allir af friðlýstri tegund.

Allir fuglarnir lifðu flutninga mannsins af, en sumir þeirra sýndu merki ofþornunar og streitu auk þess sem margir höfðu misst hluta fjaðra sinna eftir margra klukkutíma langa veru í pappakassa.

Conings gæti átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi fyrir smygl á villtum dýrategundum.

Kassarnir sem maðurinn geymdi fuglana í.
Kassarnir sem maðurinn geymdi fuglana í. AFP
mbl.is