Játning í líkfundarmáli

Bergen við vesturströnd Noregs. Umfangsmikil lögreglurannsókn í kjölfar líkfundar á …
Bergen við vesturströnd Noregs. Umfangsmikil lögreglurannsókn í kjölfar líkfundar á útivistarsvæði 13. janúar hefur leitt í ljós að fólkið, maður og kona, voru að öllum líkindum myrt í gistiskýli fyrir óreglufólk og líkin svo flutt þaðan. Maður á sextugsaldri játaði í fyrradag að hafa myrt fólkið en alls sitja fimm í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Ljósmynd/Wikipedia/Tomoyoshi NOGUCHI

Margdæmdur 56 ára gamall karlmaður hefur játað við yfirheyrslur hjá lögreglunni í Bergen og rannsóknarlögreglunni Kripos að hafa verið valdur að dauða 29 ára gamallar konu og 43 ára gamals manns sem fundust látin á vinsælu útivistarsvæði við Gullfjellet, austan við Bergen í Noregi, mánudaginn 13. janúar.

Rannsókn málsins hefur verið mjög umfangsmikil og hafa á fjórða tug lögreglumanna lagt nótt við nýtan dag síðan málið kom upp. Hefur rannsóknin leitt til þess að alls sex manns hafa verið handteknir, sá síðasti á þriðjudaginn, og sitja nú fimm þeirra í gæsluvarðhaldi. Einum var sleppt úr haldi en sá er aðeins grunaður um að spilla sönnunargögnum. Hinir fimm eru allir grunaðir um manndráp eða samverknað við manndráp.

Lögregla telur víst að fórnarlömbunum hafi verið ráðinn bani í gistiskýli á vegum borgarinnar fyrir útigangsfólk og aðra kantmenn lífsins, en hús þetta er við Møllendalsveien 19 í Bergen. Einn þeirra sem sitja í gæsluvarðhaldi er starfsmaður skýlisins og telur lögregla að eftir að fólkinu var ráðinn bani, líklega aðfaranótt 13. janúar, hafi líkin verið flutt að rótum Gullfjellet og skilin þar eftir undir ábreiðu eða dúk.

Rannsakendur liggja nú yfir tugum klukkustunda af upptökum úr fjölda öryggismyndavéla í nágrenni Møllendalsveien til að reyna að henda reiður á því hvenær og hvernig líkflutningarnir fóru fram. Hafa lögreglu borist um 80 ábendingar í þá átt frá almenningi auk þess sem 50 vitni hafa mætt í skýrslutöku hjá lögreglu.

Rúmlega 20 refsidómar

Maðurinn sem hefur játað á sig verknaðinn hefur setið bak við lás og slá stóran hluta sinnar 56 ára löngu tilveru. Hann hefur hlotið rúmlega 20 refsidóma, meðal annars fyrir ofbeldi, brot á nálgunarbanni, vörslur fíkniefna og akstur undir ýmsum áhrifum. Raunar var hann á biðlista eftir afplánun fimm mánaða dóms þegar ódæðin sem hann hefur játað á sig voru framin.

Lögregla telur sig nú vita ástæðuna bak við drápin en kýs að afhjúpa hana ekki að svo stöddu. „Við höfum dregið upp mynd af ástæðunni, atburðarásinni og tímasetningunni en í ljósi rannsóknarhagsmuna getum við ekki deilt þeim upplýsingum enn sem komið er,“ sagði Inger-Lise Høyland, lögmaður ákærudeildar lögreglunnar í Bergen, við fjölmiðla í gær. „Við þekkjum til forsögu hinna myrtu, hún getur haft þýðingu fyrir ástæðuna að baki drápunum og atburðarásina sem leiddi til þeirra,“ sagði Høyland enn fremur.

Fyrst nú í ástandi til að gefa skýringu

Sá margdæmdi gerði grein fyrir atvikum í löngu máli við yfirheyrslur á þriðjudagskvöld og í gærkvöldi. „Ástæðan fyrir því að hann játar núna er að það er núna fyrst sem hann er í ástandi til að gefa lögreglunni skýringu,“ sagði Einar Råen, verjandi mannsins, við norska dagblaðið VG í gær.

Ivar Blikra, réttargæslulögmaður fjölskyldu konunnar sem var myrt, segir fjölskyldunni létt eftir að hún fregnaði játningu aðalgrunaða. „Margar spurningar brenna á aðstandendunum en fram til þessa hafa ekki fengist mörg svör,“ sagði Blikra við Bergens Tidende, sem rekur læsta áskriftarsíðu, og bætti því við að aðstandendurnir bæru fullt traust til rannsóknarinnar og þess að lögreglan greindi þeim frá málavöxtu í fyllingu tímans.

NRK

Aftenposten

ABC Nyheter

Bergens Tidende (ólæst frétt)

Nettavisen

mbl.is