Mjanmar hafnar úrskurði Alþjóðadómstólsins

Þúsundir rohingjamúslima létust og fleiri en 700.000 þurftu að flýja …
Þúsundir rohingjamúslima létust og fleiri en 700.000 þurftu að flýja til Bangladess í kjölfar aðfarar hers Mjanmar gegn þeim árið 2017. AFP

Yfirvöld í Mjanmar hafa svarað úrskurði Alþjóðadómstóls Sameinuðu þjóðanna þar sem þeim er gert að grípa strax til aðgerða til að koma í veg fyrir þjóðarmorð á minnihlutahópi múslima, rohingjum.

Í svari yfirvalda í Mjanmar er úrskurði dómstólsins hafnað og hann sagður draga upp „afskræmda mynd af ástandinu“.

Þúsundir rohingjamúslima létust og fleiri en 700.000 þurftu að flýja til Bangladess í kjölfar aðfarar hers Mjanmar gegn þeim árið 2017.

Í dag gerði Alþjóðadómstóllinn í Haag yfirvöldum í Mjanmar að fylgja fjölda fyrirmæla, meðal annars að hætta drápum á rohingjum og vísvitandi að reyna að útrýma þeim, en þetta er í fyrsta sinn sem Mjanmar er dregið fyrir dóm vegna aðfarar yfirvalda gegn rohingjum. 

Hefur engar leiðir til að fylgja úrskurðum eftir

Alþjóðadómstóllinn gerði stjórnvöldum í Mjanmar að skila skýrslu til dómstólsins eftir fjóra mánuði og síðan á hálfs árs fresti, en þau voru ekki lengi að svara fyrir sig.

Í umfjöllun BBC um málið segir að úrskurður Alþjóðadómstólsins sé bindandi og að honum sé ekki hægt að áfrýja. Hins vegar hefur alþjóðadómstóllinn engar leiðir til þess að tryggja að úrskurðum hans sé fylgt.

Yfirvöld í Mjanmar hafna því að þjóðarmorð hafi átt sér stað en gangast við því að stríðsglæpir hafi verið framdir. Saksótt verði og úrskurðað vegna þeirra innan réttarkerfis Mjanmar.

mbl.is