Lenti harkalega og tók aftur á loft

Flugvélar British Airways á Heathrow.
Flugvélar British Airways á Heathrow. AFP

Myndskeið náðist af óvenjulegu atviki á Heathrow-flugvellinum í London gær þegar flugvél British Airways lenti harkalega og tók svo aftur á loft.

Veðrið var slæmt í Bretlandi í gær með tilheyrandi stormi, sem eitt breskt slúðurblað lýsti sem „stormi aldarinnar“.

Big Jet TV sem sýnir beint frá flugvöllum náði atvikinu á filmu. Á vefsíðu stöðvarinnar stóð að þarna hafi verið á ferðinni flugvél af tegundinni Boeing 777, að því er Business Insider greindi frá.

Í myndskeiðinu sést þegar flugvélin vaggar nokkuð til hliðar áður en hún lendir harkalega á flugbrautinni og tekur svo á loft á nýjan leik.

„Þökkum flugmönnunum og áhöfninni fyrir svona ótrúlega frammistöðu við erfiðar aðstæður,“ sagði á Twitter-síðu Big Jet TV.

mbl.is