Tíu sinnum fleiri smitaðir en tölur segja

AFP

Þrátt fyrir að hægt hafi á nýjum kórónuveirutilvikum á Ítalíu undanfarna tvo daga stefnir allt í að þau fari yfir þann fjölda sem hefur smitast í Kína á næstu dögum. Sóttvarnalæknir telur að tíu sinnum fleiri séu smitaðir en opinberar tölur segja. Alls hafa 81.588 smitast í Kína en á Ítalíu er talan komin í 63.927. Íbúar Ítalíu eru 60 milljónir talsins.

AFP

Angelo Borelli, helsti sérfræðingur Ítalíu í kórónuveirunni og yfirmaður almannavarna, fagnar því að dauðsföllum fari fækkandi og segir að það megi þakka því að útgöngubann hafi verið sett á. 

„Aðgerðirnar sem við gripum til fyrir tveimur vikum eru farnar að hafa áhrif,“ segir Borelli í viðtali við La Repubblica. Hann segir að næstu dagar muni skera úr um hvort það sé farið að draga úr fjölgun smita, að toppnum verði náð fljótlega. Á laugardag létust 793 á Ítalíu, 651 á sunnudag og 601 í gær. 

AFP

Vísindamenn telja að Frakkar og Spánverjar muni fylgja í fótspor Ítalíu hvað varðar fækkun nýsmita. Mörg ríki Evrópu hafa gripið til svipaðra aðgerða og Ítalía hvað varðar samkomubann. Útgöngubann var sett á Ítalíu 12. mars og rennur það út á morgun. Nánast allt er lokað eða bannað í landinu. 

Hreyfing að hámarki í klukkustund utandyra

AFP

Í Frakklandi eru smitin orðin um 20.200 talsins og tæplega 900 hafa látist. Landbúnaðarráðherra Frakklands, Didier Guillaume, hefur biðlað til þeirra sem hafa misst vinnuna vegna kórónuveirunnar að koma bændum til aðstoðar. Bæði varðandi uppskeru og skepnuhald. 

Forsætisráðherra Frakklands, Édouard Philippe, ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi. Þar kem fram að matarmarkaðir undir beru lofti eru bannaðir nema í dreifbýli þar sem þeir gegna mikilvægu hlutverki og yfirvöld telja nauðsynlega. Þar er fólk beðið um að fara í einu og öllu eftir þeim reglum sem gilda um nálægð. 

AFP

Þeir sem vilja hreyfa sig geta farið út að ganga, hlaupa eða viðrað börn sín en mega ekki fara nema 1 km frá heimili sínu og aðeins í klukkutíma í senn, einu sinni á dag. Allir verða að vera með skjal á sér þar sem á stendur dagsetning og tímasetning á brottför frá heimili. Skylda er að framvísa þessu ef lögregla eða her óskar eftir því. Bannað er að yfirgefa heimili sín til þess að fara til læknis nema ef viðkomandi á pantaðan tíma á bráðamóttöku. Eins mega aðeins nánustu ættingjar mæta við útfarir. Þeir sem brjóta reglurnar eiga yfir höfði sér 135 evra sekt og ef um endurtekið brot er að ræða hækkar sektin í 1.500 evrur.

23,5% fjölgun dauðsfalla

AFP

Fjöldi þeirra sem hafa greinst með kórónuveiruna á Spáni jókst um tæp 20% síðasta sólarhringinn en þar eru 39.673 smitaðir. Síðasta sólarhringinn hafa 514 látist á Spáni af völdum veirunnar og er því fjöldi látinna kominn í 2.696. Þetta þýðir að 23,5% aukning hefur orðið í andlátum þar í landi. 

AFP

Varnarmálaráðherra Spánar, Margarita Robles, segir að verulega skorti á aðbúnað eldra fólks á elliheimilum og herinn hafi gripið inn. Gamalmenni hafi fundist algjörlega yfirgefin og jafnvel látin í rúmum sínum á hjúkrunarheimilum þar sem starfsfólkið hafi látið sig hverfa þegar kórunuveirusmitum fjölgaði. Herinn hefur því verið virkjaður í að koma mat til fólks og kanna með líðan þess á hjúkrunar- og elliheimilum. 

AFP

Vegna þess hversu margir hafa látist á Spáni undanfarið, ekki síst í höfuðborginni, hefur verið gripið til þess ráðs að koma upp líkhúsi á skautasvellinu í verslunarmiðstöðinni Palacio de Hielo (Íshöllinni). Verslunarmiðstöðin, en þar eru reknar verslanir, veitingarstaðir, keiluhöll og kvikmyndahús, er skammt frá Ifema-ráðstefnumiðstöðinni sem hefur verið breytt í bráðabirgðasjúkrahús fyrir sjúklinga með kórónuveiruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert