Svíar mala gull í íþróttabanni

Norskar kappreiðar eru í lamasessi vegna kórónuveirunnar. Handan landamæranna í …
Norskar kappreiðar eru í lamasessi vegna kórónuveirunnar. Handan landamæranna í austri keppa Svíar hins vegar áfram og græða sænsk getraunafyrirtæki á tá og fingri á getraunaáhuga íþróttasveltrar heimsbyggðar. Ljósmynd/trav365.no

Íþróttakappleikir leggjast nú af um víða veröld vegna þess faraldurs sem þyngir heimsbyggðinni. Sjálfum Ólympíuleikunum er frestað og það í fyrsta sinn af öðrum ástæðum en styrjaldartengdum. Hin tilfellin voru árin 1916, 1940 og 1944, þegar ungir menn bárust á banaspjót víða um lönd.

Áhugafólk um getraunir tengdar íþróttaleikjum á í fá hús að venda og fátt leika í boði sem veðjandi er á. Þetta ástand hefur gert það að verkum að peningar getraunaþyrstra streyma til Svíþjóðar.

Svíar reka enn veðreiðar eins og ekkert hafi í skorist og eru nú að skjóta helstu keppinautum á þeim vettvangi, nágrönnum sínum Norðmönnum auk Frakka, ref fyrir rass. Í Noregi ríkir nú kyrrðin ein á veðhlaupabrautinni á Forus við Stavanger þar sem ekki hefur annað verið athafnað síðan 12. mars en hestaþjálfun Pål Buer sem er nauðugur einn kostur að halda keppnishestunum í þjálfun hvað sem tautar og raular.

16.500 ársverk

„Við þjálfum hestana eins og vaninn er, en eins og staðan er núna er alls óvíst hvenær þeir hlaupa á ný,“ segir Buer í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag. Í meðalári kemur Buer að um það bil 400 veðhlaupum á brautinni á Forus en er nú stirt um stef.

Reikningarnir berast þó áfram þrátt fyrir horfnar tekjur. Viðhald norskra hlaupabrauta og þjálfun keppnishrossa er ekki ókeypis. Samkvæmt tölum getraunafyrirtækisins Norsk Rikstoto eru 16.500 ársverk innt af hendi við norskar veðhlaupabrautir þegar allt er talið og eru nú ótal störf í hættu.

Hin annálaða veðhlaupabraut á Forus við Stavanger í Rogaland í …
Hin annálaða veðhlaupabraut á Forus við Stavanger í Rogaland í Noregi þar sem alla jafna er líf í tuskunum þegar keppt er. Þar ríkir þó þögnin ein nú, en sænskt getraunafyrirtæki fjórfaldar veltu sína, jafnvel á mánudegi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jarvin

Austan landamæranna er aðra sögu að segja. Svíar keyra sínar veðreiðar sem aldrei fyrr og, eftir að norsku nágrannarnir féllu úr söðli, veðja nú íþróttaáhugmenn um allan heim á sænskar veðreiðar með atbeina lýðnetsins þar sem flest er falt fyrir rétta upphæð. Ekki síst sænskar veðreiðar.

Met í V64-getrauninni

Á mánudagskvöldið setti sænska getraunafyrirtækið ATG met í veltu í V64-getrauninni þar sem veðjað er um sigurvegara úr sex hlaupum. Greiddu þátttakendur þá sem nemur 310 milljónum íslenskra króna fyrir hlaupaveðmál sem er fjórföld velta á við hefðbundið mánudagskvöld.

Engir áhorfendur eru þó til staðar á sænsku brautunum vegna kórónumála heldur hvetja knapar klára sína fyrir tómum áhorfendapöllum, úrslitin skila sér á netið og til milljóna getraunaáhugamanna sem fá nú aldrei að vita hvernig farið hefði fyrir Liverpool eða öðrum knattspyrnuliðum vorið 2020 né Daða Frey Péturssyni og dansfimu Gagnamagni hans, fólkinu sem hver veit nema hefði lagt sjálfa Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva að fótum sér 16. maí 2020.

Norðmenn láta ekki sitt eftir liggja og veðja grimmt á sænska hesta þótt óljúft sé, þeir greiddu sem nemur 168 milljónum íslenskra króna í sænsk veðhlaup á laugardaginn. Þrátt fyrir að ATG greiði að jafnaði um fjórðung veltu sinnar til baka í formi vinninga hagnast fyrirtækið gríðarlega á að annars staðar í heiminum hafi veðhlaup að mestu lagst af í bili.

„Þetta er vinnustaður“

Sá galli er þó á gjöf Njarðar að ATG tapar á móti háum upphæðum á þeim lið þjónustu sinnar sem felst í að veita Svíum aðgang að hrossaveðmálum utan Svíþjóðar. Útkoman er þó nokkurn veginn sú sama og án kórónuveiru þar sem Svíar berast enn á fáki fráum fram um veg, þótt áhorfendur séu engir. ATG tapar sem sagt engu að sögn Patrik Brissman, upplýsingafulltrúa þar á bæ.

„Þetta er vinnustaður, hættum við hlaupunum kemur það hart niður á íþróttagreininni og iðkendum hennar. Við metum tíma fyrir tíma og dag fyrir dag, en eins og er bendir ekkert til að við komum til með að hætta,“ segir Brissman, talsmaður sænskrar getraunaveitu sem nú græðir á tá og fingri vegna ástands í Noregi, Frakklandi og fleiri löndum sem þar sem hleypt var skeiði hörðu áður en heimsfaraldurinn skall á.

mbl.is