Fresta forkosningum vegna veirunnar

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, á daglegum upplýsingafundi um kórónuveiruna …
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, á daglegum upplýsingafundi um kórónuveiruna í gær. AFP

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, tilkynnti í dag að ríkið muni fresta forvali demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar sem fram eiga að fara í ár. Kosningunum verður frestað um tæpa tvo mánuði vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í ríkinu. 

Kosningarnar áttu að fara fram 28. apríl en hefur verið frestað til 23. júní. Fleiri ríki hafa einnig ákveðið að fresta forvalinu en þó ekki um svo langan tíma. Fjöldi staðfestra smita er hvað mestur í New York ríki, en forkosningar hafa nú þegar farið fram í Kaliforníu og Washington, sem eru þau ríki sem verst hafa orðið fyrir kórónuveirufaraldrinum fyrir utan New York.  

„Það er ekki viturt að mínu mati að fólk hópist saman á einum stað til þess að kjósa,“ sagði Cuomo á daglegum upplýsingafundi um kórónuveiruna í dag. 

Staðfest smit eru rúmlega 52.300 í New York og dauðsföll eru 728 talsins. 

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, er talinn sigurstranglegur í forkosningum demókrata. Hann hefur nú fengið atkvæði 1.217 kjörmanna á meðan keppinautur hans Bernie Sanders hefur fengið 914 atkvæði. Til þess að hljóta tilnefningu flokksins þarf frambjóðandi að hafa 1,991 atkvæði kjörmanna.

mbl.is

Kórónuveiran

1. júní 2020 kl. 13:23
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir