Nýjustu tölur í Þýskalandi gefi von

Angela Merkel á blaðamannafundi vegna veirunnar í mars.
Angela Merkel á blaðamannafundi vegna veirunnar í mars. AFP

Nýjustu tölur yfir þá sem sýkst hafa af kórónuveirunni í Þýskalandi gefur von um að þar sé að hægjast á útbreiðslu veirunnar.

Þetta sagði kanslari Þýskalands, Angela Merkel, í vikulegu hlaðvarpi sínu sem kom út í dag. Bætti hún við að enn væri of snemmt að íhuga tilslakanir þeirra takmarkana sem settar hafa verið til að stemma stigu við útbreiðslunni.

Skólum hefur verið lokað í landinu, samkomur fleiri en tveggja á almannafæri verið bannaðar og fólki gert að viðhalda að minnsta kosti 1,5 metra fjarlægð frá hvert öðru.

Fjöldi staðfestra smita í landinu nálgast nú 80 þúsund.

Takmörkunum verður að óbreyttu aflétt 19. apríl. Sagði Merkel það þó óábyrgt að skuldbinda sig við fasta dagsetningu hvað það varðaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert