Fundu son sinn 32 árum eftir barnsrán

Mao Yin hitti foreldra sína í fyrsta skipti í 32 …
Mao Yin hitti foreldra sína í fyrsta skipti í 32 ár á blaðamannafundi í gær. Skjáskot af CCTV

Kínversk hjón hittu loks son sinn, sem var rænt frá þeim á hóteli árið 1988, að nýju í gær eftir að hafa leitað hans árum saman. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Mao Yin var tveggja ára gamall þegar hann var numinn á brott en faðir hans hafði stoppað á hóteli á leiðinni heim af leikskólanum með drenginn til þess að fá vatn að drekka fyrir hann í borginni Xian í Shaanxi-héraði.

Á þeim 32 árum sem eru liðin hafa foreldrar hans ferðast landið þvert og endilangt í leit að syni sínum og móðir hans hefur dreift yfir 100 þúsund dreifibréfum með upplýsingum um hann.

Fjölskyldan var sameinuð á blaðamannafundi hjá kínversku lögreglunni í gær og að sögn Mao Lin, sem er nú 34 ára gamall, ætlar hann að eyða tíma með foreldrum sínum á næstunni. 

Frétt Xinhua

Móðir hans, Li Jingzhi, þakkaði þeim tugþúsundum sem hafa tekið þátt og veitt aðstoð við leitina undanfarna áratugi. 

Í viðtali við South China Morning Post í janúar sagði Li frá leitinni að drengnum. Viðtalið var eitt margra sem hún hefur veitt frá hvarfi hans 17. október 1988. Mao Lin er fæddur 23. febrúar 1986 og þennan örlagaríka dag bað Mao föður sinn, Mao Zhenjing, um vatn þar sem hann væri þyrstur. Þeir stoppuðu við hótel og á meðan Mao Zhenjing lét vatnið kólna leit hann undan eitt augnablik og þegar hann sneri sér við var drengurinn horfinn. Fjölskyldan leitaði um allt í borginni og settu upp auglýsingar víða. Í eitt skipti héldu þau að drengurinn væri fundinn en það reyndist ekki á rökum reist. 

Li hætti að vinna til að leita að drengnum og næstu árin kom hún fram í fjölmörgum sjónvarpsþáttum í Kína þar sem hún biðlaði til fólks að láta vita ef það hefði upplýsingar um afdrif hans.

Árið 2007 gekk Li til liðs við hóp sjálfboðaliða sem hefur það að markmiði að leita að horfnum börnum. Samkvæmt ríkisfjölmiðlum kom hún að endurfundum 29 barna og foreldra en ekkert bólaði á hennar eigin syni.

Í apríl fékk lögreglan ábendingu um mann frá Sichuan-héraði, sem er í um það bil þúsund km fjarlægð frá Xian, sem hafði ættleitt dreng fyrir mörgum árum síðan.

Lögreglan fann drenginn, sem er 34 ára gamall í dag, og lífsýnarannsókn og andlitsgreiningartækni leiddi í ljós að hann væri náskyldur Mao Zhenjing og Li Jingzhi. 

Mao Yin, sem heitir Gu Ningning í dag, rekur eigið fyrirtæki, segist ekki vita hvað framtíðin beri í skauti sér en hann muni eyða einhverjum tíma með foreldrum sínum á næstunni.

Að sögn lögreglu var hann seldur til barnslausra hjóna á 6 þúsund júan, 123 þúsund krónur, á gengi dagsins í dag. Li fékk fregnir af syninum á mæðradaginn, 10. maí í Kína, og segir að þetta hafi verið besta gjöf sem hún hafi nokkurn tíma fengið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert