Hársbreidd frá dauðanum

Ekki mátti miklu muna að fjórmenningarnir þyrftu ekki að kemba …
Ekki mátti miklu muna að fjórmenningarnir þyrftu ekki að kemba hærur sínar gerr eftir grjóthrunið við Stalheimskleiva í nótt, enda óku þeir burt í loftköstum og skildu allan viðlegubúnað eftir. Ljósmynd/Roald Jordalen

Fjórir tjaldferðalangar fengu að upplifa óbeislaða orku náttúrunnar á ferðalagi sínu um Vestland-fylki í Noregi þegar margra tonna björg hrundu úr brattri fjallshlíðinni þar sem fólkið hafði slegið tjöldum sínum upp við Stalheimskleiva á bökkum Nærøydals-árinnar í Gudvangen norðaustur af Bergen, en Stalheimskleiva kallast hluti vegar sem hlykkjast þar um fjalllendið og er reyndar einn af bröttustu vegum í Norður-Evrópu með mest 20 prósenta halla.

Staðsetning tjaldanna olli bónda þar á svæðinu, Roald Jordalen, nokkrum áhyggjum er hann átti leið hjá svo hann stöðvaði bifreið sína og tók ferðalangana tali sem voru Norðmenn, enda ferðast norsk þjóð innanlands í sumar að áeggjan ríkisstjórnar sinnar.

Benti Jordalen á að skriðuföll væru ekki óalgeng á svæðinu, einkum í kjölfar mikillar úrkomu eins og nú hefði verið auk þess sem vorleysingar bættu ekki úr skák. Jordalen forðast sjálfur að aka veginn í mikilli rigningu að fenginni reynslu.

Skelltu skollaeyrum við

„Ég útskýrði fyrir þeim að hér væri hætta á skriðuföllum,“ segir Jordalen við norska ríkisútvarpið NRK. „Ég benti þeim á nokkra grjóthnullunga sem hrundu hér niður í fyrra og sagði þeim að þeir hefðu verið færðir af veginum.“

Ferðalangarnir norsku brugðust vel við ávarpi bónda, þökkuðu ráðleggingarnar og sögðust myndu gæta sín í hvívetna en skelltu að öðru leyti skollaeyrunum við aðvöruninni. „Ég kvaddi og taldi mig hafa gert mitt,“ segir Jordalen.

Ekki liðu margar klukkustundir frá samtalinu þar til hreyfing varð í fjallshlíðinni og í nótt æddu margra tonna þung björg niður hlíðina og staðnæmdust tvö þeirra aðeins örfáa metra frá tveimur tjöldum ferðalanganna óráðþægnu sem vöknuðu þegar í stað, bókstaflega við vondan draum, hlupu í bifreiðar sínar og óku í loftköstum burt. Sannast þar hið fornkveðna að ekki verður ófeigum í hel komið, en tjöld og annar búnaður fengu að standa eftir.

„Sundur klofnuðu björgin blá,/byrgð leiðin opnast fóru,/líkamir dauðra lifna þá;/lít …
„Sundur klofnuðu björgin blá,/byrgð leiðin opnast fóru,/líkamir dauðra lifna þá;/lít hér þau undrin stóru;“ orti Hallgrímur Pétursson í 46. Passíusálmi sínum sem hér kemur óneitanlega upp í hugann þótt nú sé reyndar ekki um að ræða „teiknin sem urðu við Kristí dauða“. Ljósmynd/Roald Jordalen

Jordalen átti aftur leið um í morgun og sá þá hvers kyns var. Segir hann NRK að líklega vegi stærsta bjargið á bilinu sjö til átta tonn. „Bílarnir voru farnir svo ég gekk út frá því að allt hefði farið vel, en á meðan ég staldraði við kom fólkið til baka að vitja eigna sinna,“ segist bónda frá.

„Þeim virtist brugðið,“ segir Jordalen og bætir því við að önnur bifreiðanna hafi verið löskuð eftir grjóthrunið. „Við skiptumst nú ekki á mörgum orðum. Einn spurði mig hvenær búast mætti við næsta grjóthruni og ég sagði honum að um það væri ómögulegt að spá.“

Lögreglan í vesturumdæminu tjáir NRK að grjóthrunið hafi orðið um klukkan hálfeitt í nótt, hálfellefu í gærkvöldi að íslenskum tíma. Jarðfræðingur á vegum norsku umferðarstofunnar, Statens vegvesen, fór á vettvang í morgun og mat aðstæður svo að reikna mætti með fleiri skriðuföllum og hefur veginum nú verið lokað. Hann var reyndar einnig lokaður um tíma fyrr í vor og tiltölulega nýbúið að opna þegar fjórmenningarnir stálheppnu tóku sér náttstað.

NRK

Aftenposten

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka