Banna komur frá Brasilíu

AFP

Bandarísk yfirvöld hafa bannað fólki sem er að koma frá Brasilíu að koma inn í landið vegna mikillar fjölgunar kórónuveirusmita þar í landi. Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska forsetaembættinu gildir bannið um alla aðra en Bandaríkjamenn. Ef fólk hefur verið í Brasilíu síðustu tvær vikur er því óheimilt að koma til Bandaríkjanna.

Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, tók vel á móti stuðningsmönnum sínum …
Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, tók vel á móti stuðningsmönnum sínum við Planalto-höllina í Brasilíu í gær. AFP

Í dag er verið að aflétta ýmsum hömlum vegna kórónuveirunnar í Evrópu en mjög hefur hægt á farsóttinni í álfunni undanfarna daga.

Aftur á móti hefur hert á sóttinni í Rómönsku-Ameríku og eru staðfest smit í heiminum að nálgast 5,4 milljónir og alls eru yfir 345 þúsund látnir af völdum COVID-19 í heiminum frá því undir lok síðasta árs. 

Heilbrigðisstarfsmenn mótmæltu í Brasilíu í síðustu viku.
Heilbrigðisstarfsmenn mótmæltu í Brasilíu í síðustu viku. AFP

Í Brasilíu, sem er sjötta fjölmennasta ríki heims, eru rúmlega 360 þúsund staðfest smit og aðeins í Bandaríkjunum sem fleiri hafa greinst með veiruna. Aftur á móti hefur forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, litlar áhyggjur af ástandinu og reyndir að gera sem minnst úr farsóttinni. Yfir 22 þúsund Brasilíumenn eru látnir af völdum COVID-19. Bolsonaro hefur hingað til talið óþarfi að beita útgöngumanni enda sé það óþarfi og hættulegt fyrir hagkerfi landsins. Enn á ný braut hann reglur landsins varðandi samkomubann í gær þegar hann fagnaði stuðningsfólki sínu fyrir utan forsetahöllina í höfuðborg landsins, Brasilíu. Faðmaði hann og kyssti stuðningsfólk sitt sem veifaði fánum og kallaði „Goðsögn“ og „þjóðin styður þig Bolsonaro!“.

AFP

Þrátt fyrir stuðning frá kjósendum sínum er hann harðlega gagnrýndur af öðrum fyrir það hvernig hann hefur tekið á farsóttinni og vara sérfræðingar við því að heilbrigðiskerfi landsins sé komið að fótum fram.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur þrýst á að ríkisstjórar dragi úr hömlum í landinu en alls hafa 40 milljónir starfa glatast það sem af er árinu. Tæplega 100 þúsund Bandaríkjamenn hafa látist af völdum kórónuveirunnar á árinu. 

Í Tékklandi verða veitingastaðir, barir og sundlaugar opnað að nýju í dag en alls hafa 9 þúsund smit verið staðfest í landinu. Jafnframt verður 300 manns leyft að koma saman og Tékkar þurfa ekki lengur að bera andlitsgrímur á almannafæri fyrir utan verslanir og í almenningssamgöngum. 

Í Grikklandi verða kaffi- og veitingahús opnuð að nýju í dag en aðeins staðir sem eru með þjónustu úti við. Á Spáni er verið að draga úr hömlum í Madríd og Barcelona. 

AFP-fréttastofan fjallar einnig um breyttar reglur á Íslandi, að vísu talað um að næturklúbbar verði opnaðir í dag en líkt og fram kemur í auglýsingu frá heilbrigðisráðherra mega barir vera opnir til klukkan 23 líkt og veitingastaðir.

Í Kaupmannahöfn verða dýragarðar og söfn opnuð að nýju í dag og sundlaugar og íþróttamiðstöðvar í Róm. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert