„Kórónuveiran er eins og eiginkonan þín“

Mohammad Mahfud öryggismálaráðherra er búinn að koma sér í klandur …
Mohammad Mahfud öryggismálaráðherra er búinn að koma sér í klandur eftir misheppnaða tilraun til að slá á létta strengi. AFP

Indónesískur ráðherra er búinn að koma sér í klandur eftir misheppnaða tilraun til að slá á ótta þjóðarinnar við afléttingar á þeim takmörkunum sem hafa verið í gildi þar í landi vegna kórónuveirufaraldursins. Hann líkti kórónuveirunni við erfiða eiginkonu.

Mohammad Mahfud öryggismálaráðherra var að reyna að útskýra fyrir löndum sínum að það væri ekki hægt að vera með landamærin lokuð að eilífu. Það þyrfti að aðlagast aðstæðum en á sama tíma gæta að lýðheilsu.

„Um daginn sendi samstarfsmaður minn grínmynd og þar stóð: Kórónuveiran er eins og eiginkonan þín. Í fyrstu reynirðu að stjórna henni, svo áttar þú þig á því að þú getur það ekki. Þá lærir þú að lifa með henni,“ sagði ráðherrann og ætlaði þar með að slá á létta strengi.

Það fór ekki betur en svo að hann hefur verið úthrópaður sem karlremba á samfélagsmiðlum og af kvenréttindahópum. Brandarinn er sagður undirstrika hversu alvarlega faraldurinn er tekinn þar í landi.

Endurspeglar getuleysi og kvenhatur

„Þessi ummæli endurspegla ekki aðeins getuleysi stjórnvalda til að takast á við faraldurinn heldur veita þau innsýn í hugarfar opinberra starfsmanna sem einkennist af kvenhatri,“ sagði Dinda Nisa Yra, formaður Women's Solidarity-kvenréttindahópsins, í yfirlýsingu.

Stjórnvöld í Indónesíu hafa sent um 340 þúsund hermenn um landið til að hafa eftirlit með þegnum landsins og gæta þess að farið sé eftir reglum um félagsforðun. Til stendur að aflétta þeim takmörkunum sem hafa gilt um skeið en margir óttast að það geti boðið hættunni enn frekar heim.

Um 24 þúsund staðfest smit hafa greinst í Indónesíu og tæplega 1.500 manns hafa látið lífið úr COVID-19-sjúkdómnum. Það er ein lægsta dánartíðni í heiminum miðað við höfðatölu en vísindamenn óttast að dauðsföll séu vantalinn.

Um 260 milljónir manna búa í Indónesíu.
Um 260 milljónir manna búa í Indónesíu. AFP
mbl.is