Á í erfiðleikum með að styðja Trump

Murkowski á þingi í Washington-borg í dag.
Murkowski á þingi í Washington-borg í dag. AFP

Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Alaska, viðurkenndi í dag að hún ætti í erfiðleikum með að styðja Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Murkowski, sem oftar en flestir þingmenn úr hennar flokki hefur gagnrýnt forsetann, sagði blaðamönnum að hún væri þakklát því fordæmi sem fyrrverandi varnarmálaráðherrann James Mattis hefði sett með harðorðri grein sinni í gærkvöldi.

Sagði hún hana nauðsynlega og löngu tímabæra.

„Kannski erum við komin á þann stað þar sem við getum verið hreinskilnari með þær áhyggjur sem við kunnum að bera í brjósti, og höfum hugrekki okkar eigin sannfæringar til að taka til máls,“ sagði þingmaðurinn, að því er fram kemur í umfjöllun Washington Post.

Spurð hvort hún geti enn stutt Donald Trump svaraði hún: „Ég er að glíma við það. Ég hef glímt við það lengi.“

Hún muni þó halda áfram að reyna að vinna með ríkisstjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert