Fyrrverandi forsætisráðherra í 5 ára fangelsi

Francois Fillon og kona hans, Penelope Fillon, yfirgefa dómshúsið í …
Francois Fillon og kona hans, Penelope Fillon, yfirgefa dómshúsið í París. Fillon var forsætisráðherra í forsetatíð Nicolas Sarkozy. AFP

Francois Fillon, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, og Penelope Fillon, kona hans, voru í dag fundin sek um spillingu. Forsætisráðherrann fyrrverandi hafði verið sakaður um að misnota aðstöðu sína til að koma konu sinni í gervistöðu innan hins opinbera, en fyrir það þáði hún um 830.000 evrur á fimm ára tímabili. 

Hjónin voru hvort um sig sektuð um 375.000 evrur (58 m.kr.). Þá var Francois Fillon dæmdur í fimm ára fangelsi, þar af þrjú ár skilorðsbundin, en kona hans í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi. Þau hafa áfrýjað dómnum.

Upp komst um málið í aðdraganda forsetakosninganna 2017, en Fillon var þá frambjóðandi hægriflokksins Repúblikana. Á tímabili mældist hann með mestan stuðning en eftir að vikuritið La Canard Enchaine greindi frá málinu fór að halla undan fæti hjá frambjóðandanum og varð hann þriðji í kosningunum með um 20 prósent atkvæða. Þá greindi blaðið einnig frá því að Fillon hefði ráðið tvö barna sinna í starf aðstoðarmanna þegar hann gegndi starfi öldungadeildarþingmanns 2005-2007.

Fillon hefur alla tíð neitað sök en heldur því fram að pólitískir andstæðingar hans hafi reynt að skemma fyrir houm í kosningabaráttunni. Eftir að málið vatt upp á sig baðst Fillon þó innilega afsökunar á því að hafa ráðið ættingja sína í opinberar stöður. Slíkt væri ekki ólöglegt, en hefði grafið undan trausti.

mbl.is