Þremur milljónum boðið breskt landvistarleyfi

Boris Johnson í þingsal í dag.
Boris Johnson í þingsal í dag. AFP

Allt að þremur milljónum íbúa Hong Kong verður boðið að setjast að í Bretlandi varanlega og á endanum sækja um breskt ríkisfang. Þetta sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, í fyrirspurnartíma á breska þinginu í dag.

Forsætisráðherrann sagði að frelsi íbúa Hong Kong væri ógnað með nýjum þjóðaröryggislögum sem tóku gildi í dag. Þá brytu þau gegn samkomulagi sem undirritað var er Bretar færðu Kínverjum yfirráð yfir Hong Kong árið 1997, en þar var sjálfstjórn héraðsins tryggð til næstu 50 ára.

Johsnon sagði að bresk stjórnvöld legðu áherslu á réttarríkið og að staðið væri við skuldbindingar. Hann sagði að kínverskum stjórnvöldum hefði verið gert kunnugt um það, þegar öryggislögin voru í undirbúningi, að ef Kínverjar héldu áfram á þeirri braut myndu bresk stjórnvöld opna á möguleika þeirra sem hafa breskt vegabréf með takmörkuðum réttindum (e. British national overseas status) að setjast að í landinu og á endanum sækja um fullgilt breskt ríkisfang.

Lögregla ræðst að mótmælendum í Hong Kong í dag. 23 …
Lögregla ræðst að mótmælendum í Hong Kong í dag. 23 ár eru í dag liðin frá því Kínverjum voru færð yfirráð yfir Hong Kong úr hendi Breta. AFP

Um 350.000 breskir ríkisborgarar búa í Bretlandi en því til viðbótar eru 2,6 milljónir Hong-Kongbúa með hið takmarkaða vegabréf sem nú veitir þeim réttindi til landvistar í Bretlandi til sex mánaða.

Utanríkisráðherra Bretland, Dominic Raab, sagði að engar takmarkanir yrðu á fjölda þeirra sem gætu sest að með þessum hætti og umsóknarferlið yrði einfalt. „Þetta eru sérsniðnar aðgerðir sem eru hannaðar vegna einstakra aðstæðna sem við stöndum frammi fyrir og í ljósi skuldbindinga okkar gagnvart íbúum Hong Kong,“ sagði Raab. Samkvæmt upplýsingum sem BBC hefur úr breska forsætisráðuneytinu verður nánari útfærsla fyrirkomulagsins kynnt von bráðar.

Lögregla í Hong Kong hefur þegar beitt nýju öryggislögunum, sem veikja mjög rétt fólks til friðsamra mótmæla í héraðinu. Níu voru handteknir í dag, þeirra á meðal maður sem flaggaði fána til stuðnings sjálfstæðishreyfingu héraðsins. Þá voru 300 manna mótmæli í borginni leyst upp í dag.

mbl.is