„Kynþáttahatursfiskur“ ritað á litlu hafmeyjuna

Á steininum sem hafmeyjan situr á stendur nú „Racist Fish“, …
Á steininum sem hafmeyjan situr á stendur nú „Racist Fish“, sem útfæra má sem „kynþáttahatursfiskur“ á íslensku. AFP

Skemmdarverk var unnið á styttuna af litlu hafmeyjunni í Kaupmannahöfn seint í gærkvöld eða nótt. Á steininum sem hafmeyjan situr á stendur nú „Racist Fish“, sem útfæra má sem „kynþáttahatursfiskur“ á íslensku. 

Þegar blaðamaður Extra Bladet spurðist fyrir um málið snemma í morgun hjá lögreglunni kom hún hins vegar af fjöllum. „Er það virkilega? Nei, við höfum ekki fengið neinar ábendingar um þetta,“ var svar varðstjóra hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn. 

Lögregla getur litla upplýsingar veitt um málið.
Lögregla getur litla upplýsingar veitt um málið. AFP

Lögregla fór því næst á vettvang við Löngulínu og er með málið til rannsóknar sem er álitið skemmdarverk. Þetta er langt því frá fyrsta skiptið sem skemmdarverk eru unnin á litlu hafmeyjunni en tilfellið nú má tengja við mótmælaöldu sem hófst í Bandaríkjunum í lok maí í kjölfar dauða George Floyds, svarts Bandaríkjamanns, sem var drepinn af lögreglumanni í Minnesota. 

Skemmdarverk hafa verið unnin á styttum sem þykja minnisvarðar um myrka tíma þegar þrælaverslun var í hámarki í Bandaríkjunum. Styttur víða um heim sem mótmælendur tengja við kynþáttafordóma hafa einnig orðið fyrir hnjaski. Fyrr í þessari viku var til að mynda rauðri málningu skvett á styttu af trúboðanum Hans Egede í Kaupmannahöfn.  

mbl.is