Kanye gegn bólusetningum og fóstureyðingum

Kanye West segist vera alvara með að bjóða sig fram …
Kanye West segist vera alvara með að bjóða sig fram sem forseta AFP

Rapparanum Kanye West virðist vera alvara með að bjóða sig fram sem forseta Bandaríkjanna, ef marka má viðtal Forbes sem birtist í dag.

Hann tilkynnti forsetaframboð sitt á dögunum, en margir hafa dregið það í efa hvort honum hafi í raun verið alvara.

West segir að hann muni bjóða sig fram undir merkjum hans eigin stjórnmálaflokks, nefndur „the Birthday party,“ og að hans helstu ráðgjafar séu eiginkona hans, Kim Kardashian, og frumkvöðullinn Elon Musk. Þau hafa bæði lýst yfir stuðningi við West.

Þá tilkynnti West að hann hafi þegar valið sér varaforsetaefni, prest frá Wyoming að nafni Michelle Tidball. Tidball er tiltölulega óþekkt í heimi bandarískra stjórnmála, en er, samkvæmt annari frétt Forbes, biblíulegur markþjálfi.

Dregur innblástur frá Wakanda

Þegar kemur að helstu stefnumálum, staðsetur West sig gegn fóstureyðingum og dauðarefsingunni.

Hann viðurkennir þó að hann hafi ekki enn tekið afstöðu í skattamálum, þar sem hann þurfi að rannsaka þau betur, og að hann hafi heldur ekki mótað utanríkisstefnu sína. Hann vill þó leggja áherslu á að vernda Bandaríkin.

Þá mun West draga innblástur úr stjórnsýslu Wakanda-ríkis, úr kvikmyndinni Black Panther frá árinu 2018.

West segist hafa efasemdir um bólusetningar gegn kórónuveirunni, sem og bólusetningum yfir höfuð, og að til að finna lækningu á kórónuveirunni þurfum við að „hætta að gera hluti sem gera Guð reiðan.“

West veiktist sjálfur af Covid-19 í febrúar, en það hafði ekki áhrif á ákvörðun hans að bjóða sig fram, segir West í viðtalinu.

Hjónin Kim Kardashian og Kanye West.
Hjónin Kim Kardashian og Kanye West. AFP

Biden ekki sérstakur

Ýmsir hafa bent á að umsóknarfrestur til að vera á kjörseðlinum er runninn út í mörgum ríkjum, þó að enn sé tími til að skrá sig í nokkrum þeirra. West segist þó ekki hafa áhyggjur af því; hann muni ræða við Jared Kushner, tengdarson Donalds Trump, Hvíta Húsið, og Joe Biden, frambjóðanda Demókrata, til að gera framboð hans að raunveruleika.

West hefur áður lýst yfir stuðningi við Donald Trump, og hefur oft á tíðum borið „Make America Great Again“-derhúfuna á höfði sér. Hann hefur þó dregið stuðning sinn til baka að miklu leyti.

Hann segist þó ekki vilja gagnrýna Trump um of, heldur snýr hann sér frekar að frambjóðanda Demókrata. Telur West að forseti Bandaríkjanna verði að vera „sérstakur.“ „Obama er sérstakur. Trump er sérstakur. Við segjum að Kanye West sé sérstakur,“ segir West. Hann telur hinsvegar Joe Biden ekki vera sérstakan.

The Guardian greinir frá því að framboð West hafi verið gagnrýnt, þar sem það gæti haft skaðað sigurlíkur Joe Biden. Þá telur West það vera rasisma og hvíta þjóðernishyggju að segja að allt svart fólk verði að kjósa Demókrata og reikna með að framboð hans muni skipta atkvæðunum.

mbl.is