Gates bjartsýnn

Bandaríski auðkýfingurinn Bill Gates sagðist í dag vera bjartsýnn varðandi baráttuna við kórónuveiruna og hvatti til þess að lyfjum og bóluefnum verði frekar dreift til þeirra sem þurfa mest á þeim að halda í stað þeirra sem „biðu best“. 

Stofnun Gates-hjónanna gaf 7,4 milljarða Bandaríkjadala til bólusetningarbandalagsins Gavi í síðasta mánuði. Fram­lag Íslands til Gavi, sem er sér­stakt aðgerðabanda­lag fjöl­margra ríkja, fyr­ir­tækja og stofn­ana, nemur 250 milljónum króna. 

Banda­lagið miðar að því að hraða þróun, fram­leiðslu og dreif­ingu á bólu­efni við COVID-19 og er mark­mið þess jafn­framt að stuðla að sýna­tök­um og meðferðarúr­ræðum fyr­ir alla, óháð bú­setu og efna­hag.

„Ef við látum lyf og bóluefni fara til þess sem bjóða hæst í stað þess að þau fari til fólksins á þeim stöðum þar sem þörfin er mest þýðir það að farsóttin verður banvænni og óréttlátari,“ sagði Gates í myndskilaboðum sem flutt voru á starfrænni alþjóðlegri ráðstefnu þar sem fjallað er um COVID-19 og AIDS.

„Leiðtogar þurfa að taka þessar erfiðu ákvarðanir. Að byggja dreifingu á jafnrétti ekki bara markaðsdrifnum ástæðum.“

Að sögn Gates hefur kórónuveirufaraldurinn haft áhrif á lyfjadreifingu og framleiðslu, meðal annars lyf við alnæmi. Þetta getur valdið því að hundruð þúsunda fá ekki þá meðferð sem þau þurfa á að halda. „En ég er enn bjartsýnn,“ bætti hann við. „Við munum sigra COVID-19 og við munum halda áfram komast yfir hindranir í baráttunni gegn alnæmi og öðrum erfiðleikum í heilbrigðismálum.“

mbl.is