Skellt í lás að nýju í Kaliforníu

Hárgreiðslustofum verður lokað að nýju í Kaliforníu.
Hárgreiðslustofum verður lokað að nýju í Kaliforníu. AFP

Ríkisstjórinn í Kaliforníu hefur ákveðið að herða að nýju sóttvarnir í ríkinu vegna fjölgun kórónuveirusmita. Alls voru staðfest tæplega 60 þúsund ný smit í Bandaríkjunum í gær. Af þeim voru tæplega 8.400 í Kaliforníu. Þar hafa 330 þúsund smit verið staðfest og af þeim hafa yfir sjö þúsund sjúklingar látist. 

Í Bandaríkjunum eru slitin ríflega 3,36 milljónir og tæplega 136 þúsund hafa látist. Smitum hefur helst fjölgað að undanförnu í svokallað sólar-belti sem nær frá Flórída til Kaliforníu. 

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, fyrirskipaði í gær að veitingastöðum sem þjóna fólki innanhúss yrði lokað, börum, kvikmyndahúsum, hárgreiðslustofum og bænahúsum í þeirri von að draga úr fjölgun smita. Kalifornía er fjölmennasta ríki Bandaríkjanna og er hagkerfi þess stærra en flestra ríkja heims. 

Þetta þýðir að kirkjur og moskur, líkamsræktarstöðvar, verslunarmiðstöðvar og skrifstofur þar sem ekki er brýn nauðsyn að séu opnar verður lokað að nýju. 

Newsom segir að með þessu sé verið að snúa aftur í fyrra horf hvað varðar - haldið ykkur heima - en útfærslan nú sé aðeins mildari. Fyrstu aðgerðirnar í þá veru komu til framkvæmda í mars en í maí var byrjað að draga úr hömlum að nýju. 

mbl.is