Sjö banaslys í Ölpunum á Bastilludaginn

Alparnir eru mjög vinsælt útivistarsvæði og vara frönsk yfirvöld við …
Alparnir eru mjög vinsælt útivistarsvæði og vara frönsk yfirvöld við því á hverju sumri að ferðamenn vanmeti ekki hættur fjallanna. AFP

Sjö létu lífið í slysum í frönsku Ölpunum á Bastilludeginum, þjóðhátíðardegi Frakklands, í gær. Meðal þeirra látnu eru tveir svifvængjaflugmenn.

Lík fertugs Hollendings og þrítugrar franskrar konu fundust síðdegis í gær, þriðjudag, skammt frá Chapelle de la Gliere, þar sem þau virtust hafa hrapað í klettabelti á vinsælli gönguleið í Chamonix-dalnum.

Þá fannst lík 71 árs gamalls manns sem virðist hafa fallið til bana nærri tindi Mont de Grange, skammt frá landamærunum að Sviss.

Samkvæmt björgunarsveitum á svæðinu fundust lík tveggja ítalskra klifrara við rætur Mont Maudit með hjálp þyrlu í morgun. Um var að ræða reynda klifrara á sjötugsaldi, en þeir höfðu klifið Maudit ítalíumegin og voru á niðurleið Frakklandsmegin þegar slysið varð. Talið er að mikil þoka haf torveldað för klifraranna, sem féll um 300 metra.

Þá létust tvær 48 ára gamlar konur sem brotlentu á svifvængjum sínum á þaki húss í bænum La Chapelle-d'Abondance.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert