Hvolpasveitin ekki fórnarlamb útilokunarmenningar

Hvolpasveitin er vinsæl hjá þeim yngstu.
Hvolpasveitin er vinsæl hjá þeim yngstu.

Framleiðslu á barnaefninu Hvolpasveitinni hefur ekki verið hætt þrátt fyrir ummæli fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins. 

Kayleigh McEnany, fjölmiðlafulltrúi Hvíta húsins, sagði að þættirnir, sem fjalla meðal annars um „lögregluhunda“ væru í hópi sjónvarpsefnis sem yrðu ekki sýndir lengur sökum útilokunarmenningar (e. cancel culture). 

Samkvæmt BBC hafa framleiðendur Hvolpasveitarinnar fullvissað aðdáendur þáttanna um að þeir séu ekki á förum, en fjölmargir sjónvarpsþættir um bandarísku lögregluna hafa verið teknir úr sýningu í kjölfar umfangsmikilla mótmæla gegn lögregluofbeldi og kynþáttafordómum vestanhafs. 

Á upplýsingafundi á föstudag sagði McEnany að Donald Trump Bandaríkjaforseti væri á móti útilokunarmenningu, þá sérstaklega þegar kemur að lögregluþjónum. „Við sjáum fyrir nokkrum vikum að Hvolpasveitin, teiknimyndaþættir um lögregluna, voru afpantaðir,“ sagði McEnany. 

Þá sagði McEnany að leikfangaframleiðandinn Lego hafði fjarlægt leikföng sín sem tengjast lögreglunni úr verslunum sínum. Forsvarsmenn Lego gáfu í kjölfarið út yfirlýsingu þar sem fram kom að engin leikföng hafi verið fjarlægð úr verslunum. 

mbl.is