Kim Jong-un bað Suður-Kóreu afsökunar

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur beðist afsökunar á drápi á suðurkóreskum embættismanni.

Forsetaskrifstofa Suður-Kóreu greinir frá þessu.

Kim er sagður hafa greint Moon Jae-in, starfsbróður sínum í Suður-Kóreu, frá því að atvikið hefði aldrei átt að eiga sér stað og að um hafi verið að ræða „óvænt og skammarlegt“ atvik. Afsökunarbeiðni frá leiðtoga Norður-Kóreu er afar sjaldgæf og því hefur hún því vakið mikla athygli. 

Embættismaðurinn var skotinn til bana á hafi úti á þriðjudaginn af norðurkóreskum hermönnum og að sögn stjórnvalda í Suður-Kóreu var kveikt í líki hans á meðan það var enn í sjónum. Talið er að þar hafi verið á ferðinni varúðarráðstöfun til að koma í veg fyrir kórónuveirusmit.

Þetta er í fyrsta sinn sem suðurkóreskur ríkisborgari er drepinn af norðurkóreskum hermönnum í áratug og hefur málið vakið upp mikla reiði í Suður-Kóreu.

Maðurinn er sagður hafa ætlað að flýja úr landi. Í bréfi frá norðurkóreskum stjórnvöldum viðurkenna þau að hafa skotið 10 skotum að manninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert