Varað við hertum aðgerðum

AFP

Nýjum kórónuveirusmitum hefur fjölgað mjög mikið í nokkrum hverfum New York, einkum í samfélögum strangtrúaðra gyðinga í Brooklyn. Heilbrigðisyfirvöld í borginni segja að ef ekki sé farið að sóttvarnareglum megi búast við því að fólk verði sektað. 

Í meira en mánuð hefur hlutfall smita verið undir einu prósenti í borginni en það á ekki við um öll hverfi borgarinnar. Í sex hverfum í Brooklyn og tveimur í Queens hefur smitum fjölgað mjög undanfarið og er hlutfall smita komið upp í 5-6% þar. 

Óttast er að smitum eigi eftir fjölga mjög næstu daga en í gær og dag halda þeir Yom Kippur hátíðlegan. 

Í fréttatilkynningu frá borgaryfirvöldum kemur fram að 23% nýrra smita séu á þessum svæðum þrátt fyrir að hlutfall af íbúa hverfanna af heildinni í New York sé aðeins tæp 7%. Innlögnum á sjúkrahús hefur einnig fjölgað í Brooklyn og Queens. Vegna fjölgunar nýrra smita eru ýmsir farnir að óttast aðra bylgju nýrra COVID-19-smita í New York. 23.800 létust í borginni í fyrstu bylgjunni í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert