Hvers vegna þessi þögn?

AFP

Þetta er álitin ein alvarlegasta árás á list og fornmuni í sögu Þýskalands frá stríðslokum. Þrátt fyrir það tók það meira en tvær vikur að upplýst yrði um hana.

Olíukenndum vökva var sprautað á að minnsta kosti 70 fornmuni á Safnaeyjunni, Museum Insel, í Berlín, svæði fimm þekktra safna og er svæðið á heimsminjaskrá UNESCO.

Árásin var gerð 3. október, á 30 ára afmæli sameiningar Vestur- og Austur-Þýskalands. BBC vísar í fréttir þýskra fjölmiðla þar sem getgátur eru uppi um hvort öfgasinnaðir samsæriskennismiðir hafi komið þar að. Það er að upplýsingaóreiða þeirra hafi orðið til þess að einhverjir unnu skemmdarverk á ómetanlegum listmunum.

AFP

Attila Hildmann, sem hefur dreift samsæriskenningum um Covid-19-heimsfaraldurinn, hefur meðal annars sagt að eitt safnanna fimm, Pergamon-safnið, sé hásæti satanista.

Meðal þess sem Hildmann hefur haldið fram er að gyðingar vilji útrýma þýska kynstofninum. Að þýska ríkið sé í þjónustu Bills Gates við að koma á þvinguðum bólusetningum við Covid-19 og breyta Þýskalandi í eftirlitsríki. Hann segist sjálfur vera róttækur þjóðernissinni. 

Það sem er vitað með vissu, samkvæmt BBC, er að rannsóknarlögreglan í Berlín upplýsti um árásina í gærkvöldi, 17 dögum eftir að skemmdir voru unnar á heimsþekktum listmunum og málverkum.

Hvers vegna þessi leynd ríkti um árásina hefur ekki verið upplýst og var ekki greint frá þessu fyrr en fjölmiðlar herjuðu á lögreglu og kröfðust upplýsinga.

AFP

Samkvæmt fréttum fjölmiðla hafa önnur söfn í Þýskalandi ekki verið vöruð við mögulegri árás.

Lögreglan hefur sent þeim sem keyptu miða á söfnin þennan dag, 3. október, tölvupóst þar sem óskað er eftir upplýsingum.

Talsverðar skemmdir eru á listmunum og hefur ekki tekist að hreinsa þá. Enn er ekki vitað hvers vegna þessi dagur varð fyrir valinu, hvort hann tengist sameiningu Þýskalands eður ei.

Þýskir fjölmiðlar hafa bent á færslur Hildmanns á samfélagsmiðlum í ágúst þar sem hann lýsti fullur vandlætingar því að alls konar djöfulgangur ætti sér stað á stað á safninu við Pergamon-altarið en safnið var reist sérstaklega til að hýsa það og aðrar fornminjar frá uppgreftri í borginni Ur.

AFP

Safnið var enn lokað í ágúst út af kórónuveirufaraldrinum og hélt Hildmann því fram að altarið væri miðja alþjóðlegra satanista og kórónu-glæpamanna. 

Hér er hægt að lesa sér til um Hildmann á Wikipedia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert