Íranar vísa fullyrðingum FBI á bug

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans.
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans. AFP

Íranska utanríkisráðuneytið hefur boðað sendiherra Sviss í landinu á sinn fund vegna fullyrðinga Bandaríkjamanna um að þjóðin hafi reynt að hafa áhrif á almenningsálitið í Bandaríkjunum í tengslum við forsetakosningarnar þar í landi.

Bandarísk stjórnvöld „hafa lagt fram fullyrðingar sem enginn fótur er fyrir, rétt áður en forsetakosningarnar í landinu hefjast, til að þau geti haldið áfram með sitt ólýðræðislega og fyrirfram ákveðna ferli svo að hægt sé að færa sökina eitthvað annað,“ sagði Saeed Khatibzadeh, talsmaður ráðuneytisins, í tilkynningu.

Svissneska sendiráðið í Teheran hefur annast málefni Bandaríkjanna í landinu síðan slitið var á tengsl við það eftir íslömsku byltinguna árið 1979.

Fram kom á blaðamannafundi bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, í gærkvöldi að tölvu­póst­ar hafi borist frá Íran þar sem kjós­end­um hafi verið hótað, auk þess sem Íran­ar hafi sent frá sér fals­mynd­bönd með upp­lýs­ing­um um at­kvæðaseðla. Einnig kom fram að Rúss­ar og Íran­ar hafi kom­ist yfir upp­lýs­ing­ar um kjós­end­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert