Trump boðar til blaðamannafundar

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 16:30 að …
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 16:30 að íslenskum tíma. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 11:30 að staðartíma í Philadelphiu, en það er klukkan 16:30 að íslenskum tíma. Þetta kemur fram í stuttu tísti sem hann setti inn á twitter áðan.

Af þeim fimm barátturíkjum þar sem enn á eftir að telja öll atkvæði leiðir keppinautur hans um forsetaembættið, Joe Biden, í fjórum ríkjanna, en Trump í einu. Leiðir Biden í Pennsylvaníu, Georgíu, Arizona og Nevada, en Trump í Norður-Karólínu.

Allra augu eru á Penn­sylvan­íu, rík­inu með 20 kjör­menn. Þar hafa um 96% at­kvæða verið tal­in og hef­ur Biden 28 þúsund at­kvæða for­skot, eða sem nem­ur 0,5 pró­sentu­stig­um. Þegar fyrstu at­kvæði bár­ust hafði Trump gott for­skot, en eft­ir því sem utan­kjör­fund­ar­at­kvæðin fóru að streyma inn minnkaði for­skotið hratt og það var loks í gær sem Biden tók fram úr for­set­an­um.

Hátt í 200 þúsund at­kvæði standa þar eft­ir ótal­in. Mörg þeirra koma frá svæðum þar sem demó­krat­ar hafa notið mjög góðs fylg­is, til að mynda í Phila­delp­hiu og í Pitts­burgh. Enn furða menn sig á að miðlar hafi ekki lýst hann sig­ur­veg­ara, en hingað til hefur töl­fræðiteymi Decisi­on Desk HQ lýst Biden sigurvegara en aðrir hafa ekki fylgt í fótspor þeirra. Senni­lega hafa þeir þó gild­ar ástæður. Að lýsa yfir sigri fram­bjóðanda er stór ákvörðun.

Fyrr í dag setti Trump inn fjögur önnur tíst þar sem hann ítrekaði fyrri skilaboð sín um að svindl hefði átt sér stað í kosningunum. Sagði hann að tugir þúsunda ólöglegra atkvæða hefðu borist eftir klukkan átta á kjördag og að þau atkvæði væru að breyta úrslitunum í Pennsylvaníu og öðrum barátturíkjum.

Twitter hefur ritskoðað þessi tíst hans, en það gerir miðillinn þegar hann telur að um sé að ræða rangfærslur hjá forsetanum.

Skjáskot/Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert